Reyndi að klóra af sér örin

Vicky Knight á rauða dreglinum fyrir frumsýninguna á Dirty God
Vicky Knight á rauða dreglinum fyrir frumsýninguna á Dirty God AFP

„Ég var að taka of stóra skammta, skaða sjálfa mig, skera mig og var komin á þann stað að mig langaði ekki að lifa með örunum lengur. Ég reyndi að klóra þau af mér. Ég hataði þau, hataði hvernig ég leit út. Í hvert skipti sem ég horfði á mig í speglinum þá grét ég.“

Þannig lýsir hin 24 ára gamla breska leikkona Vicky Knight lífi sínu áður en hún fékk hlutverk í sinni fyrstu kvikmynd, Dirty God, eftir hollenska leikstjórann Sacha Polak, sem frumsýnd var á þessu ári. Í samtali við breska dagblaðið The Independent segir hún myndina hafa bjargað lífi sínu – hún hafi loksins sætt sig við orðinn hlut. Knight slapp naumlega lifandi úr eldsvoða þegar hún var átta ára en hlaut brunasár á 33% líkamans og gekkst í framhaldinu undir fjölda húðgræðsluaðgerða. Tveir ungir frændur Knight, tíu og fjögurra ára, létust í eldsvoðanum.

Ekki liggur fyrir hver eldsupptök voru en frænka Knight var kærð fyrir manndráp af gáleysi og dregin fyrir dómstóla – en fundin sýkn saka. Knight rifjar upp í viðtalinu að þau frændsystkinin hafi ekki fundið neina leið út úr ölknæpu afa þeirra, þar sem þau sváfu að næturlagi. Þá birtist maður, Ronnie Springer, og lofaði að bjarga henni. „Ég hélt að hann væri svona sveittur en í raun var hann að bráðna fyrir augum mér. Bráðna eins og kerti,“ segir Knight en Springer, sem kom henni heilu og höldnu út, lést nokkrum dögum síðar á spítala. Tvísýnt var um líf Knight sjálfrar og hún rifjar upp að móðir hennar hafi hraðað sér á spítalann ásamt presti „vegna þess að þau vissu ekki hvort ég myndi hafa það af“.

Knight í hlutverki sínu í Dirty God.
Knight í hlutverki sínu í Dirty God.


Daglegt ofbeldi

Líkami Knight er þakin örum og skólagangan reyndist henni afar erfið. „Ég var beitt ofbeldi svo til daglega,“ segir hún við The Independent. „Fólk gekk framhjá mér og veifaði kveikjurum framan í mig, tróð sígarettum í andlitið á mér og hótaði að brenna heimili mitt.“

Kaldhæðnin var um skeið besta skjólið og Knight var óspör á grínið á eigin kostnað. „Þegar ég dey fæ ég helmingsafslátt af líkbrennslunni,“ var einn brandarinn og annar að hún væri dóttir Freddies Kruegers. „Þetta er ófyndið og að því kom að ég var farin að niðurlægja sjálfa mig án afláts. Þegar fólk hrósaði mér vissi ég ekki hvernig ég átti að taka því.“

Knight reyndi fyrir sér á stefnumótasíðum en þegar hún sagði frá örunum var lokað á hana. Í dag hefur hún verið í sambandi við aðra konu í á annað ár en þær höfðu spjallað saman á netinu í sex ár áður en Knight þorði að hitta hana augliti til auglitis. Kom með allskonar afsakanir í millitíðinni.

Þegar Knight var átján ára bjó hún til stutt myndband, þar sem hún sýnir örin, og í framhaldinu vildi Lucy Pardee, sem vinnur við að finna nýtt hæfileikafólk og velja í hlutverk, ólm komast í samband við hana. Knight fór til að byrja með undan í flæmingi enda hafði hún áður verið plötuð í stefnumótaþátt með því undarlega nafni „Of ljót/ur fyrir ástina“ og vildi ekki upplifa aðra slíka niðurlægingu. Þá frétti hún af Dirty God og samþykkti að hitta Polak leikstjóra að máli.

„Gott skrímsli“

Dirty God fjallar um unga konu sem reynir að koma undir sig fótunum á ný eftir að hafa orðið fyrir sýruárás en myndin þykir veita magnaða sýn inn í heim fólks sem finnst því vera útskúfað vegna útlitsins. Karakterinn, Jade, sem Knight leikur, verður fyrir þeim ósköpum að dóttir hennar hræðist hana eftir árásina og sannfæra þarf hana um að móðir hennar sé „gott skrímsli“. Gert er grín að Jade í vinnunni og hún leiðist út í að fróa sér fyrir framan áhorfendur á netinu – ljósið dauft til að hylja örin.

„Til að byrja mér var mér ekkert um það gefið,“ segir Knight um nektarsenurnar. „Ég hafði aldrei sýnt neinum líkama minn í kynferðislegum tilgangi. Svæfi ég hjá, þá var ég alltaf í ermabol. En mér finnst þetta koma vel út í myndinni. Alls ekki dónalegt.“

Hún segir tökurnar á myndinni hafa reynt á sálarlífið enda var hún að endurupplifa allt sem hún hafði gengið í gegnum sjálf. „Ég margbrotnaði niður á settinu og skaut leikstjóranum í tvígang skelk í bringu.“

Eins erfitt og þetta var þá kveðst Knight ekki mundu vera hérna án Dirty God. „Það var ekki fyrr en ég sá Dirty God í fyrsta sinn að ég sá einhverja aðra, ekki sjálfa mig, með örin mín. Myndin bjargaði lífi mínu. Ég gafst hér um bil upp og manni eru engir vegir færir inni í kassanum. Ég átta mig á því nú að það er ekkert að því að vera öðruvísi. Í raun er það betra en að vera venjulegur. Mig langar að lifa. Vil ekki deyja. Ég vil lifa lengur en yfirgangsseggirnir sem gerðu mér lífið leitt.“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »