Andrés og fall íslensku bankanna

Andrés prins er mjög til umfjöllunar í breskum fjölmiðlum þessa …
Andrés prins er mjög til umfjöllunar í breskum fjölmiðlum þessa dagana. AFP

Andrés Bretaprins, her­togi af Jór­vík, er sakaður um að hafa ítrekað farið út fyrir valdsvið sitt sem erindreki viðskipta fyrir hönd Bretlands í eigin hagnaðarskyni. Í gær fjölluðu breskir fjölmiðlar um ásakanir á hendur honum þar að lútandi. Meðal annars í tengslum við fall íslensku bankanna.

Í fréttaskýringu sem birt er í Mail on Sunday er farið yfir tengsl prinsins við kaupsýslumanninn David Rowland sem er skráður til heimilis í skattaskjóli í Karíbahafinu. Telegraph fjallar ítarlega um málið í dag en þar kemur fram að Andrés hafi átti 40% hlut í fyrirtæki sem skráð var á Bresku jómfrúareyjunum. Fyrirtækið hét Inverness Asset Management (IAM) og var til þangað til í mars á þessu ári. Andrés ber einnig titilinn jarlinn af Inverness. 

Fyrirtækið vann með aðlinum og fleiri þekktum einstaklingum en það tengist öðrum fjárfestingarsjóð á Cayman-eyjum. Mail og Sunday heldur því fram að Andrés hafi heimilað syni Rowland, Jonathan, að fara með sér í viðskiptaferð til Kína, sem fjármögnuð var af bresku skattfé. Þar gat Jonathan átt fundi í skjóli bresku konungsfjölskyldunnar og komið á viðskiptatengslum við fyrirtæki og sjóði í eigu Rowland-fjölskyldunnar. 

Frétt Daily Mail

Jafnframt á Jonathan Rowland  að hafa fengið, með leynd, minnisblað frá breska fjármálaráðuneytinu varðandi fjármálakreppuna á Íslandi en nokkrum mánuðum áður hafði Rowland-fjölskyldan keypt Kaupþing í Lúxemborg á 86 milljónir punda. 

Þegar Andrés var neyddur til þess að hætta sem erindreki bresku krúnunnar vegna tengsla við barnaníðinginn Jeffrey Epstein á Jonathan Rowland að hafa lagt til að þeir myndu gæta þess að koma viðskiptasambandi sínu undan eftirliti. Þessu svaraði hertoginn í tölvupósti að hann væri ánægður með þessa tillögu.

Í kvöld verður birt viðtal BBC við Virginiu Roberts Giuffre, sem segir að Epstein hafi gert hana út til Bretlands af Epstein þar sem hún var meðal annars þvinguð til kynmaka með Andrési er hún var 17 ára gömul.

Samkvæmt Daily Mail hafði fall íslenska bankakerfisins áhrif á 230 þúsund Breta sem áttu innistæður á Icesave-reikningum Landsbankans.

Samkvæmt Icesave-samkomulaginu sem samþykkt var árið 2009 átti Ísland að greiða Bretum 2,3 milljarða punda fyrir árið 2024. Líkt og fram hefur komið felldu Íslendingar samkomulagið í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 2020.  Samkvæmt tölvupóstum sem blaðamenn Mail on Sunday hafa undir höndum á  Amanda Thirsk, hæri hönd Andrésar að hafa sent á háttsetta einstaklinga í fjármálaráðuneytinu breska beiðni um að fá frekari upplýsingar en þetta er nokkrum mánuðum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Segir hún í tölvupóstinum til Michael Ellam að Andrés hafi hitt forsætisráðherra Íslands í Davos og vilji fá frekari upplýsingar um hver staðan er. Ellam sendi beiðnina áfram til einkaritara Alaister Darling fjármálaráðherra. Ráðuneytið sendi síðan öll gögn um málið til Thirsk 15. febrúar sem síðan sendi þau áfram til Andrésar. 

En Andrés lét þar ekki við sitja heldur sendi gögnin sama dag til Jonathan Rowland þar sem hann talar um að Amanada hafi fengið þessar upplýsingar og hvað gera ætti áður en Rowland léti til skarar skríða.

mbl.is