„Hann er viðbjóðslegasti dansari sem ég hef séð“

Virginia Giuffre er að stíga fram í fyrsta skipti en …
Virginia Giuffre er að stíga fram í fyrsta skipti en hún tilheyrir hópi kvenna sem segjast vera fórnarlömb mansals á vegum Epstein. AFP

Virg­inia Giuf­fre, bandarísk kona sem seg­ir að barn­aníðing­urinn Jef­frey Ep­stein hafi gert hana út til Bret­lands árið 2001 þar sem hún var meðal ann­ars þvinguð til kyn­maka með Andrési prinsi er hún var 17 ára göm­ul, biður breskan almenning að standa með frásögn hennar. 

„Hann veit hvað gerðist, ég veit hvað gerðist. Aðeins annað okkar er að segja sannleikann,“ segir Giuffre í viðtali við Panorama, fréttaskýringaþátt BBC, sem sýndur verður í kvöld og er helmingi lengri en venjulega. 

Giuffre er að stíga fram í fyrsta skipti en hún tilheyrir hópi kvenna sem segjast vera fórnarlömb mansals á vegum Epstein. Í viðtalinu lýsir hún fyrstu kynnum sínum af prinsinum en það var þáverandi kærasta Epstein, Ghislaine Maxwell, sem sagði henni „hvað hún ætti að gera fyrir Andrés prins“. Maxwell fór með Giuffre á næturklúbbinn Tramp í Lundúnum þar sem prinsinn bauð henni upp í dans. 

„Hann er viðbjóðslegasti dansari sem ég hef séð á ævinni,“ segir Giuffre í viðtalinu þar sem hún lýsir því hvernig svitadropar spýttust í allar áttir frá prinsinum. Þegar þau yfirgáfu næturklúbbinn sagði Maxwell henni að gera það sama og hún gerði fyrir Epstein. „Mér varð óglatt,“ segir Giuffre. Seinna sama kvöld hafði prinsinn samræði við hana á heimili Maxwell. 

Sagðist ekki getað svitna

Andrés prins hefur neitað því statt og stöðugt að hafa átt í kynferðislegu sambandi við Giuffre, en viðtalið við Giuffre var tekið áður en Andrés ræddi við BBC um tengsl sín við Epstein í afar umdeildu viðtali. 

Andrés hafnaði því að hafa hitt Giuffre og að umrætt kvöld hefði hann verið á pizzustað í Woking ásamt dætrum sínum. Auk þess sagðist hann ekki getað svitnað sökum áfalls sem hann varð fyrir í Falklandseyja-stríðinu. Þá færi hann lítið út að skemmta sér. Allar þessar fullyrðingar hafa breskir miðlar hrakið síðustu vikur, meðal annars með ljósmynd af Giuffre og Andrési á heimili Maxwell. 

Breska konungsfjölskyldan hefur sent  frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar Panorama í kvöld þar sem fram kemur að Andrés iðrast tengsl sín við Epstein. Þá hafnar fjölskyldan því að Andrés hafi átt í kynferðislegu sambandi við Giuffre. 

Andrés hefur dregið sig í hlé frá öll­um op­in­ber­um skyldu­störf­um á veg­um bresku kon­ungs­fjöl­skyld­unn­ar og hyggst flytja skrif­stofu sína út úr Buck­ing­ham-höll. Þá mun hann draga sig út úr starf­semi og stjórn 230 góðgerðarfé­laga og -sam­taka.

Fréttaskýringaþátturinn Panorama verður sýndur á BBC One klukkan 21 að íslenskum tíma. 

mbl.is