Segja Andrési skylt að bera vitni

Andrési Bretaprinsi, her­toga af Jór­vík, ber skylda til að bera …
Andrési Bretaprinsi, her­toga af Jór­vík, ber skylda til að bera vitni í máli fimm kvenna sem fullyrða að þær séu fórn­ar­lömb man­sals á veg­um Jeffrey Ep­stein, að mati lögfræðings kvennanna. AFP

Fimm konur sem saka Jeffrey Epstein um kynferðislega misnotkun segja Andrés Bretaprins búa yfir mikilvægum upplýsingum um mansal. Lögmaður kvennanna, sem fullyrða að þær séu fórn­ar­lömb man­sals á veg­um Ep­stein, segir að verið sé að undirbúa stefnur í málinu til að fá Andrés prins til að bera vitni í málunum. 

Konurnar segja Andrés hafa orðið vitni af því þegar stúlkur undir lögaldri nudduðu menn á heimili barnaníðingsins Epstein. Þetta er meðal þess sem kom fram í fréttaskýringaþættinum Panorama á BBC í kvöld. 

David Boies, lögmaður kvennanna fimm, segir Andrési bera skylda til að bera vitni. Ef hann neitar hyggst Boies stefna prinsinum fyrir dóm. 

Í þættinum var einnig talað við Virginiu Giuffre, bandaríska konu sem seg­ir að Ep­stein hafi gert hana út til Bret­lands árið 2001 þar sem hún var meðal ann­ars þvinguð til kyn­maka með Andrési prinsi er hún var 17 ára göm­ul. Giuffre bað bresku þjóðina um að standa með henni. 

Mynd af Giuffre og Andrési var einnig til umfjöllunar. Prinsinn segist ekki muna eftir að myndin hafi verið tekin og hefur gefið í skyn að hún sé fölsuð. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur myndina til rannsóknar og segir allt benda til þess að hún sé ósvikin. 

Umdeilt viðtal sem Andrés veitti BBC hefur svo sannarlega dregið dilk á eftir sér. Í umfjöllun Daily Mail um helgina er Andrés sakaður um að hafa ít­rekað farið út fyr­ir valdsvið sitt sem er­ind­reki viðskipta fyr­ir hönd Bret­lands í eig­in hagnaðarskyni. Í gær fjölluðu bresk­ir fjöl­miðlar um ásak­an­ir á hend­ur hon­um þar að lút­andi. Meðal ann­ars í tengsl­um við fall ís­lensku bank­anna.

Breska þingið hefur óskað eftir því að þessar ásakanir verði rannsakaðar nánar.

mbl.is