Stunginn með hnífi í kvikmyndahúsi

mbl.is/Hjörtur

Tvítugur karlmaður var fluttur á sjúkrahús eftir að hann hafði verið stunginn með hnífi í átökum sem brutust út í kvikmyndahúsi í borginni Nottingham í Bretlandi í gærkvöldi. Maðurinn reyndist ekki í lífshættu og var útskrifaður skömmu síðar.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að 16 ára gamall piltur og 23 ára gamall karlmaður hafi verið handteknir vegna aðildar að átökunum. Talið er að sá yngri hafi stungið fórnarlambið en þeir voru báðir vopnaðir hnífum.

Málið er í rannsókn að sögn lögreglu en ekki hafa verið veittar upplýsingar um það hvert tilefni átakanna hafi verið og hvort mennirnir hafi þekkst áður.

mbl.is