Geta skilgreint blaðamenn sem „erlenda útsendara“

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi geta skilgreint sjálfstæða blaðamenn og bloggara sem „erlenda útsendara“ í kjölfar þess að umdeildum lögum var breytt í þá veru.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að ákveðin fjölmiðlafyrirtæki sem og frjáls félagasamtök, sem tekið hafa þátt í stjórnmálastarfi og þegið hafa fjárframlög frá erlendum aðilum, hafi þegar verið skilgreind með þessum hætti.

Lagabreytingin hefur verið fordæmd af Evrópusambandinu, mannréttindasamtökunum Amnesty International og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

Rifjað er upp í fréttinni að hugtakið „erlendur útsendari“ hafi á tímum Sovétríkjanna verið notað yfir pólitíska andstæðinga stjórnvalda.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, undirritaði breytt lög í gær. Samtök og einstaklingar, sem skilgreindir hafa verið sem erlendir útsendarar, verða að geta þess í útgefnu efni á þeirra vegum að þeir séu það og skila gögnum um það til yfirvalda að viðlögðum sektum.

mbl.is