Lifðu á vodka, vatni og kexi

Hásumar er í Ástralíu og miklir þurrkar víða.
Hásumar er í Ástralíu og miklir þurrkar víða. AFP

Karl og kona fundust á lífi í óbyggðum Ástralíu eftir tæplega tveggja vikna vist. Þau höfðu fátt annað að eta og drekka en vodka, vatn og kex. Þriðju manneskjunnar er enn leitað, að sögn lögreglu.

Vinirnir þrír voru á ferðalagi skammt frá Alice Springs þegar þeir festu bifreið sína á árbakka 19. nóvember. Eftir að hafa beðið í nokkra daga eftir björgun ákváðu tvö þeirra að ganga af stað meðfram landamerkjagirðingu í þeirri von að finna hjálp. Á þessum tíma hafði mjög gengið á vistir þeirra. 

Að sögn lögreglu var það bóndi sem gekk fram á karlmanninn, Phu Tran, sem er fertugur að aldri, í dag eftir að vinkona hans, Tamra McBeath-Riley, 52 ára, fannst á sunnudag. Ástand Phu er gott þrátt fyrir að hann væri frekar illa áttaður. Tamra McBeath-Riley þjáðist aftur á móti af ofþornun. Hún var aðeins í 2 km fjarlægð frá bifreiðinni þegar hún fannst og eins hafði Tran ekki gengið nema sem nemur tveimur dagleiðum. 

McBeath-Riley sagði í viðtali við ástralska sjónvarpið, ABC, að þau hafi lifað á vodka-gosblöndum og vatni úr holu sem ætlað var nautgripum. Þau höfðu ekkert annað að borða en kexkökur og til þess að forðast brennandi hitann frá sólinni héldu þau til í skjóli bifreiðarinnar.

Ekkert hefur spurst til Claire Hockridge, 46 ára, en hún og Phu héldu hópinn þangað til fyrir tveimur dögum. Að sögn lögreglu var ástand hennar þokkalegt á þeim tíma er leiðir þeirra skildi og er hennar nú ákaft leitað. Lögreglan segist vonast til þess að hún finnist fljótlega heil á húfi.

McBeath-Riley og Hockridge búa í Alice Springs en Phu var í heimsókn hjá þeim þegar óhappið varð. 

mbl.is