Sá barnavagn og spor niður að sjó

Frá blaðamannafundi lögreglunnar í Tromsø í morgun, grunur leikur á …
Frá blaðamannafundi lögreglunnar í Tromsø í morgun, grunur leikur á að móðirin sem drukknaði í gær hafi ætlað að ráða þremur dætrum sínum bana. Sú elsta lést en tvær yngri systur, fæddar 2015 og í fyrra, eru í lífshættu á Ríkissjúkrahúsinu í Ósló. Skjáskot

Íbúar Tromsø í Norður-Noregi eru slegnir óhug eftir voveiflegt andlát móður á þrítugsaldri og sjö ára dóttur hennar en mæðgurnar fundust í sjónum þar sem heitir Fagereng við Tromsø í gærkvöldi. Systur og dætur hinna látnu, eins og fjögurra ára, komu í morgun með sjúkraþyrlu á Ríkissjúkrahúsið í Ósló þar sem þær eru nú meðhöndlaðar og eru báðar í lífshættu eftir því sem norskir fjölmiðlar greina frá. Upphaflega voru mæðgurnar allar fluttar á Háskólasjúkrahús Norður-Noregs.

Það var árvökull vegfarandi sem hafði samband við lögreglu á sjötta tímanum í gær að norskum tíma og tilkynnti um barnavagn við sjávarsíðuna í Fagereng og fótspor sem frá honum lægju rakleitt út í sjó.

Lögregla setti tafarlaust í gang mikinn viðbúnað, björgunarskipin Skomvær og Gideon héldu þegar á vettvang auk varðskips norsku landhelgisgæslunnar, Heimdal, og leitarþyrlu. Lögreglumennirnir sem fyrstir komu á vettvang fundu þó allar mæðgurnar í sjónum, komu þeim á þurrt og hófu lífgunartilraunir áður en þær voru fluttar með hraði á Háskólasjúkrahús Norður-Noregs.

Rannsaka málið nú sem sakamál

Þar sem engin mæðgnanna var í ástandi til að tjá sig við lögreglu var ekkert vitað um hvort fleiri væru í sjónum, eða yfir höfuð hvað hefði gerst, svo leit var haldið áfram á Fagereng-svæðinu fram eftir kvöldi og lýsti Pål Hansen, fréttamaður norska ríkisútvarpsins NRK, því í sjónvarpsfréttatíma í gær hvernig leitarmenn óðu sjóinn upp að mitti og björgunarskipin ásamt björgunarmönnum á gúmmíbáti leituðu fjær landi.

Á blaðamannafundi lögreglunnar í Tromsø klukkan 11 í morgun, 10 að íslenskum tíma, tilkynnti Anita Hermandsen yfirlögregluþjónn að það sem í upphafi hefði verið rannsakað sem slys væri nú rannsakað sem sakamál og móðirin látna grunuð um manndráp og tilraun til manndráps.

„Mikilvægt er að fram komi að lögreglan vinnur enn að frumrannsókn málsins,“ sagði Hermandsen á fundinum í morgun, „við vinnum út frá nokkrum kenningum og ein þeirra er að móðirin hafi banað einu barna sinna og skaðað hin lífshættulega,“ sagði hún einnig, auk þess að lögreglan útilokaði ekki að fleiri ættu hlut að máli.

Faðirinn með stöðu vitnis

Mæðgurnar eru af súdönsku bergi brotnar og hafði þeim verið veitt tímabundið dvalarleyfi í Noregi. Faðir þeirra kom fyrstur úr fjölskyldunni til Noregs árið 2015 og mæðgurnar tveimur árum síðar eftir að hann sótti um leyfi til að sameina fjölskyldu sína á ný í landinu, svokallaða familiegjenforening.

Faðirinn liggur ekki undir grun um saknæman verknað í málinu en hefur stöðu vitnis og var færður á lögreglustöð í Tromsø til skýrslutöku.

Flaggað er í hálfa stöng í dag við Borgtun-grunnskólann í bænum, þar sem stúlkan sem lést var nemandi, og var minningarstund haldin þar í morgun. Gunnar Wilhelmsen bæjarstjóri sagði á blaðamannafundi í ráðhúsinu nú í hádeginu að íbúar Tromsø væru harmi slegnir eftir atburð gærkvöldsins. „Hugur okkar er hjá öllum þeim sem hlut eiga að máli,“ sagði Wilhelmsen meðal annars í yfirlýsingu sem hann flutti á fundinum.

NRK

VG

Dagbladet

TV2

mbl.is