Veitti nýjar upplýsingar um ljósmyndina

Virginia Giuffre í þætti BBC, Panorama, í gærkvöldi.
Virginia Giuffre í þætti BBC, Panorama, í gærkvöldi. AFP

Virginia Giuffre veitti frekari upplýsingar um ljósmyndina sem var tekin af henni og Andrési Bretaprinsi þegar hún var 17 ára í fréttaskýringaþættinum Panorama á BBC í gærkvöldi.

Hún sagðist hafa farið með prinsinum, barnaníðingnum Jeffrey Epstein og þáverandi kærustu hans, Ghislaine Maxwell, á næturklúbbinn Tramp í London þar sem hún dansaði við prinsinn.

Í bílnum á leiðinni til baka sagði Maxwell henni að hún þyrfti að gera það sama fyrir Andrés og hún gerði fyrir Epstein og varð Giuffre óglatt við að heyra það.

Þegar þau komu aftur í húsið sem þau höfðu verið í sagðist Giuffre hafa beðið Epstein um að taka ljósmynd af henni til að sýna fjölskyldunni sinni. Eftir það fór hún afsíðis með Andrési.

„Þetta var ógeðslegt“

„Þarna var bað og þetta byrjaði þar og síðan leiddist þetta inn í svefnherbergið og þetta entist ekki lengi, allt ferlið,“ sagði hún, að því er vefsíða BBC greinir frá.

„Þetta var ógeðslegt. Hann var ekki vondur eða neitt þannig en hann stóð upp og sagði takk og gekk út.“

Andrés hefur neitað því að hafa stundað kynlíf með Giuffre og kveðst ekki muna eftir því að hafa nokkru sinni hitt hana.

Ljósmyndin af þeim tveimur var fyrst birt árið 2011 eftir að blaðið Mail on Sunday hafði uppi á Giuffre og greiddi henni 160 þúsund dollara fyrir að segja sögu sína, eða tæpar 20 milljónir króna.

Andrés prins við hátíðlega athöfn í september síðastliðnum.
Andrés prins við hátíðlega athöfn í september síðastliðnum. AFP

Sögðu myndina falsaða

Á þessu ári byrjuðu heimildarmenn innan konungshallarinnar að tala um að ljósmyndin væri fölsuð og Andrés hefur einnig gefið það sterklega í skyn.

„Þú getur ekki sannað hvort þessi ljósmynd er fölsuð eða ekki vegna þess að þetta er ljósmynd af ljósmynd af ljósmynd,“ sagði hann í viðtali við BBC Newsnight og kvaðst ekki muna eftir því að myndin hefði nokkru sinni verið tekin.

Hann sagðist heldur ekki muna eftir því að hafa verið á efri hæðinni í húsi vinkonu sinnar Ghislaine Maxwell þar sem ljósmyndin var tekin.

FBI fékk ljósmyndina

Giuffre sagði við Panorama að ljósmyndin væri ekta og að hún hefði látið bandarísku alríkislögregluna, FBI, fá upphaflegu myndina árið 2011. „Heimurinn hlýtur að vera orðinn leiður á þessum fáránlegu afsökunum. Þetta er alvörumynd,“ sagði hún. „Ég lét FBI hafa hana vegna rannsóknar þeirra og þetta er alvörumynd. Það er dagsetning aftan á henni sem sýnir hvenær hún var prentuð út.“

Hún sagði dagsetninguna vera 13. mars 2001, tveimur dögum eftir að hún yfirgaf London eftir að hafa ferðast þangað með Epstein og Maxwell.

Andrés og Elísabet Englandsdrottning árið 2013.
Andrés og Elísabet Englandsdrottning árið 2013. AFP

Sannfærður ljósmyndari

Panorama ræddi einnig við ljósmyndarann Michael Thomas sem tók fyrsta afritið af myndinni árið 2011. Hann sagðist sannfærður um að hún væri ekta vegna þess að hann fann hana í miðjum bunka mynda sem Giuffre lét hann hafa frá ferðum hennar með Epstein og Maxwell.

Panorama fann einnig sannanir sem styðja frásögn Giuffre um að hún hefði látið FBI hafa upphaflegu ljósmyndina.

Í dómsskjölum kemur fram að hún lét FBI hafa 20 ljósmyndir árið 2011 og voru þær allar skannaðar. Aðeins 19 myndir voru þó birtar almenningi og að sögn Panorama var myndin af Andrési fjarlægð til að vernda einkalíf hans.

mbl.is