Dómsmálanefndin tekur við boltanum

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert lítið úr niðurstöðum skýrslunnar og …
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert lítið úr niðurstöðum skýrslunnar og rannsókninni allri á hendur sér. Einungis örfáar mínútur liðu frá því skýrslan kom út og þar til fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að niðurstöðurnar væru eintómt kjaftæði. Hér sést Trump á ferðinni í Lundúnum í gær. AFP

Demókratar í leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar bandaríska þingsins birtu í gær skýrslu, þar sem fullyrt er að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi brotið af sér í embætti. Skýrslan er afrakstur tveggja mánaða rannsóknar nefndarinnar á gjörðum forsetans og fylgismanna hans í samskiptum við stjórnvöld í Úkraínu og þykir demókrötunum algjörlega ljóst að forsetinn hafi misnotað embætti sitt til þess að hagnast sjálfur pólitískt á því. Vitnisburðir þeirra sem kallaðir hafa verið fyrir nefndina renna að þeirra mati stoðum undir að svo hafi verið.

„Trump forseti og æðstu embættismenn sjá mögulega ekkert rangt við það að nota völd forsetaembættisins til þess að setja pressu á erlent ríki um að hjálpa forsetanum að ná endurkjöri. Hins vegar voru landsfeðurnir með hjálparmeðal gegn leiðtoga sem setti eigin hagsmuni ofan hagsmunum landsins: ákæru til embættismissis [e. impeachment],“ segir í skýrslu demókratanna.

Þetta er þó ekki einróma álit nefndarinnar. Minnihluti repúblikana tekur ekki undir þær niðurstöður sem í skýrslu demókrata er að finna og hefur birt sína eigin skýrslu þar sem rannsókn demókrata er fordæmd og sögð ólögmæt. Skoðun repúblikana er að forsetinn hafi ekki verið að reyna að beita Úkraínuforseta þrýstingi til þess að hagnast sjálfur á því pólitískt, heldur hafi hann einungis verið að hvetja Úkraínumenn til þess að taka á spillingarmálum.

Þrjú hundruð blaðsíðna skýrsla leyniþjónustunefndar fulltrúadeildarinnar kom út í gær. …
Þrjú hundruð blaðsíðna skýrsla leyniþjónustunefndar fulltrúadeildarinnar kom út í gær. Demókratar styðja hana, en repúblikanar ekki. Skýrslan verður grundvöllur umræðna í dómsmálanefnd fulltrúadeildarinnar, sem hefjast í dag. AFP

Lögspekingar veita álit sitt á gjörðum forsetans í dag

Engu að síður mun þessi skýrsla demókratanna nú fara til dómsmálanefndar fulltrúadeildarinnar, en þeirri nefnd hefur verið falið það verkefni að taka afstöðu til þess hvort mæla eigi með eða gegn ákæru á hendur forsetanum til embættismissis.

Í frétt New York Times um málið í dag kemur fram að umræður hefjist strax í dag, er fjórir lögspekingar sem sérhæfa sig í bandarísku stjórnarskránni koma fyrir nefndina og veita álit sitt á því hvort gjörðir Trumps verðskuldi að hann verði fjarlægður úr forsetaembættinu.

Búast má við því að umræðurnar í dómsmálanefndinni verði algjörlega jafn pólaðar og þær voru í leyniþjónustunefndinni, þar sem demókratar og repúblikanar líta stöðu mála gjörólíkum augum.

Í frétt AFP um stöðu mála í rannsókninni á hendur forsetanum kemur fram að það sé ætlun demókrata að láta fulltrúadeildina kjósa um hvort Trump verði ákærður fyrir jól. Demókratar hafa rúman meirihluta í fulltrúadeildinni og má búast við því að þeir samþykki að ákæra forsetann til embættismissis.

Þá verður ákæran sett í dóm öldungadeildarinnar, en þar hafa repúblikanar meirihluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert