Stærsta ákall Barnahjálpar SÞ

Skýrslan, Humanitarian Action for Children 2020 eða HAC2020, útlistar ákall …
Skýrslan, Humanitarian Action for Children 2020 eða HAC2020, útlistar ákall UNICEF um að veita börnum á stríðs- og hamfarasvæðum um allan heim aðgang að hreinu vatni, hreinlætisvörum, næringu, menntun og heilbrigðisþjónustu. Ljósmynd/UNICEF

Í árlegri skýrslu UNICEF, Humanitarian Action for Children, sem birt hefur verið, kemur fram að stofnunin þurfi 4,2 milljarða Bandaríkjadala í framlög til að ná til 59 milljóna barna í 64 löndum um allan heim á næsta ári. 4,2 milljarðar dala jafngilda 520 milljörðum íslenskra króna. Er þetta stærsta ákall Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í sögunni.

„Um allan heim erum við að sjá meiri fjölda barna í neyð en nokkurn tímann,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilkynningu frá stofnuninni.

„Aldrei fyrr í sögunni hafa fleiri börn neyðst til að flýja heimili sín. Aldrei fyrr hafa fleiri börn þurft á aðstoð, vernd og öryggi að halda. Átök í heiminum halda áfram að vera aðaldrifkraftur sundrungar og neyðar í heiminum sem verst kemur niður á börnum. Hungur, smitsjúkdómar og öfgar í veðri tengdar hamfarahlýnun þvinga milljónir til viðbótar til að leita sér neyðaraðstoðar,“ bætir Fore við.

Skýrslan, Humanitarian Action for Children 2020 eða HAC2020, útlistar ákall UNICEF um að veita börnum á stríðs- og hamfarasvæðum um allan heim aðgang að hreinu vatni, hreinlætisvörum, næringu, menntun og heilbrigðisþjónustu. Áætlunin gerir ráð fyrir að með fullorðnum nái ákallið til 95 milljóna manna alls.

Mest er neyðin tengd sýrlensku flóttafólki í Egyptalandi, Jórdaníu, Líbanon, Írak og Tyrklandi og er metin til rúmlega 864 milljóna dala (104 milljarða króna).

Þar á eftir kemur Jemen þar sem fjárþörfin er metin 535 milljónir dala (65 milljarðar króna), Sýrland með 294 milljónir dala (35 milljarða króna), Lýðstjórnarlýðveldið Kongó með 262 milljónir dala (32 milljarða króna) og loks Suður-Súdan með 180 milljónir dala (22 milljarða króna).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert