„Þú ættir að skammast þín“

Melania Trump forsetafrú Bandaríkjanna lét lagaprófessor heyra það á Twitter.
Melania Trump forsetafrú Bandaríkjanna lét lagaprófessor heyra það á Twitter. AFP

Forsetafrú Bandaríkjanna, Melania Trump, gagnrýndi opinberlega lagaprófessor sem notaði nafn 13 ára sonar þeirra hjóna til að gera grein fyrir máli sínu fyr­ir dóms­mála­nefnd full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings í gær.

Pamela Karlan, prófessor á sviði stjórn­skip­un­ar­rétt­ar, nefndi Barron Trump, son Donald og Melania Trump, sem dæmi um hvernig stjórnarskráin virki gagnvart aðli og völdum forseta. Hún segir að stjórnarskráin leggi bann við aðli svo á meðan forsetinn getur nefnt son sinn Barron getur hann ekki gert hann að baróni. 

Þegar hún lét ummælin falla var hlegið í herberginu en Melania Trump kom því á framfæri að henni væri ekki skemmt.

Melania, Donald og Barron Trump.
Melania, Donald og Barron Trump. AFP

Barn á rétt á einkalífi og á að halda fyrir utan stjórnmálin, skrifaði hún á Twitter.

Pamela Karlan þú ættir að skammast þín, segir Melania Trump meðal annars og vísar til þess að Karlan hafi beitt barni til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Trump birti færslu eiginkonu sinnar á Twitter en fylgjendur hans eru 67 milljónir talsins.

Á sama tíma og deilurnar stigmögnuðust á samfélagsmiðlum baðst Karlan afsökunar. „Ég vil biðja afsökunar á því sem ég sagði um son forsetans,“ sagði hún fyrir nefndinni. Þetta hafi verið rangt af henni. Karlan bætti síðan við að forsetinn myndi sjá sóma sinn í að biðja afsökunar á svo mörgum hlutum sem hann hefði gert. 

Pamela Karlan er prófessor í stjórnskipunarrétti við Stanford-háskóla.
Pamela Karlan er prófessor í stjórnskipunarrétti við Stanford-háskóla. AFP
mbl.is