Eitt stærsta fíkniefnamál Noregs

Óeinkennisklæddir fíkniefnalögreglumenn veittu athygli vágesti einum á götum Óslóar 15. …
Óeinkennisklæddir fíkniefnalögreglumenn veittu athygli vágesti einum á götum Óslóar 15. maí í vor, þekktum hollenskum fíkniefnaheildsala sem hér sést hægra megin á myndinni. Reyndist hann færa nokkrum stórum sölumönnum í Ósló varninginn eins og Kripos komst að í stóraðgerðunum Hubris 1.0 og 2.0. Ljósmynd/Kripos

Evrópska réttaraðstoðin Eurojust, samstarfsvettvangur stofnana með ákæruvald innan Evrópusambandsins, hafði hönd í bagga við að setja upp svokallaðan JIT-hóp (e. joint investigation team) þegar norsk lögregluyfirvöld hófu stóraðgerð sína til að draga úr miklu streymi fíkniefna frá Evrópu til Austur-Noregs, einkum Óslóar, þar sem vopnuð átök milli gengja, sem einkum snerust um yfirráð sölusvæða, þóttu orðið taka út yfir allan þjófabálk.

Þar með hófst á vegum norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos aðgerðin Hubris 1.0 vorið 2018 sem sneri einkum að stórum birgja í Danmörku sem útvegaði mörgum dreifingaraðilum í Noregi hass. Afrakstur þeirrar aðgerðar voru 2,5 tonn af hassi sem lögregla lagði hald á í Noregi og Danmörku auk þess sem flett var ofan af skipulögðu akstursneti flutningabifreiða sem óku með hass til Noregs eftir nákvæmlega tímasettri dreifingaráætlun.

Böndin berast til Hollands

Í Hubris 2.0 var sjónum beint að stórtækum fíkniefnaheildsala í Hollandi sem óeinkennisklæddir lögreglumenn, svokallaðir spanerer, höfðu veitt athygli að tekið hafði að venja komur sínar til Óslóar og hitta þar lykilmenn í fíkniefnaheiminum. Fljótlega beindist athygli Kripos að hollenskum flutningsaðilum sem færðu efni til glæpaklíkna í og umhverfis Ósló. 

Hubris-aðgerðin í algleymingi. Vörubifreiðarstjóri frá stóru matvæladreifingarfyrirtæki afhendir kassa af …
Hubris-aðgerðin í algleymingi. Vörubifreiðarstjóri frá stóru matvæladreifingarfyrirtæki afhendir kassa af banönum. Eða hvað? Ljósmynd/Kripos

Lögregla lét til skarar skríða í fyrrahaust og stöðvaði vörubíl á vegum Hollendinganna. Innan um löglegan farm höfðu 145 kíló af hassi, 60 af amfetamíni, 10 af kókaíni, fjögur af heróíni og að lokum eitt af MDMA verið falin af natni, alls 220 kílógrömm af fíkniefnum, þar af 75 af hörðum efnum.

Eins og í mörgum öðrum brotaflokkum er það svo í fíkniefnamálum að þegar einar dyr opnast fylgja fleiri í kjölfarið. Hollenski sendillinn beindi athygli Kripos að höfuðpaurum í Hollandi og á Spáni sem fluttu fíkniefni til margra Evrópulanda, þar á meðal Norðurlandanna. 

Söluverðmæti 6,6 milljarðar ISK

Þegar hér var komið sögu voru þátttakendur í rannsókn Kripos fíkniefna- og rannsóknarlögreglumenn frá Danmörku, Hollandi, Spáni, Ítalíu og Englandi ásamt Dubaí þar sem norskur ríkisborgari var handtekinn en sá hafði staðið á bak við flutning rúmlega 500 kílógramma af hassi til Noregs, magns sem nánast mætti kalla dropa í hafið í þessu máli.

Þegar öll kurl voru komin til grafar í Hubris 1.0 og 2.0 hafði lögregla í og utan Noregs lagt hald á fjögur tonn af hassi auk rúmlega 300 kg af hörðum efnum og 50 manns verið handteknir. Söluverðmæti efnanna nemur rúmlega 500 milljónum norskra króna, jafnvirði 6,6 milljarða íslenskra. Nokkur lögregluembætti í Noregi aðstoðuðu Kripos við rannsóknina.

Þessir „bananar“ hefðu vafalítið hresst margan norskan fíkilinn, að minnsta …
Þessir „bananar“ hefðu vafalítið hresst margan norskan fíkilinn, að minnsta kosti tímabundið. Aðgerðirnar Hubris 1.0 og 2.0 teygðu sig um mörg Evrópulönd og skiluðu lögreglu rúmum fjórum tonnum af fíkniefnum og 50 handtökum. Yfirmaður Kripos segir stóraðgerðir gera smyglurunum erfitt fyrir en ávallt komi maður í manns stað og flæði fíkniefna til Noregs verði aldrei stöðvað. Ljósmynd/Kripos


 

„Markmið okkar var að herða snöruna um fíkniefnaaðstreymið því við vitum að það er helsta fjármögnunarleið allrar starfsemi þeirra [aðila í skipulagðri glæpastarfsemi í Noregi],“ segir Kjetil Haukaas, yfirmaður Kripos, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Einnig er það þannig að fíkniefnamarkaðurinn er rót þeirra illdeilna sem logað hafa milli glæpagengjanna,“ segir hann enn fremur og nefnir fjölda skotbardaga á almannafæri í Ósló árið 2017 auk annars mjög grófs ofbeldis sem að miklu leyti hafi snúist um yfirráðasvæði á markaðnum í Ósló. Þar er götusala fíkniefna mjög umfangsmikil og algengt að hælisleitendur og börn allt niður í 13 ára annist sölu fyrir stærri aðila svo sem fram kom í skýrslu Uteseksjonen í fyrra sem Aftenposten og fleiri fjölmiðlar fjölluðu um.

Alltaf bætast nýir hópar í skörðin

Haukaas viðurkennir þó að lögreglan muni seint stöðva streymi fíkniefna til Noregs. „Þegar einn sendill er tekinn kemur bara annar, en núna þegar Kripos hefur hendur í hári höfuðpauranna og fjarlægir stórar stjórnunareiningar verður á brattann að sækja í smyglinu. Núna höfum við verið að taka stóra aðila, menn sem eru mun meiri atvinnumenn og eru í öðrum löndum. Þegar við gerum það koma næstráðendur þeirra bara í þeirra stað,“ segir Haukaas.

„Við höfum handtekið nokkra innstu koppa í búri þessara fíkniefnahringja,“ segir Kjell Arne Karlsen, yfirmaður rannsóknardeildar skipulagðrar glæpastarfsemi hjá Kripos, og bætir því við að handtökurnar og dómarnir hafi sterk forvarnaáhrif fyrir yngra fólk sem feti sig upp metorðastiga fíkniefnaheimsins. „Þau sjá að það er ekki eintómur dans á rósum að vera stjórnandi hjá þessum gengjum [...] Nú höfum við séð til þess að þessi hálfi milljarður [norskra króna] fari ekki í að fjármagna þessa starfsemi í framtíðinni,“ segir Karlsen enn fremur.

NRK

Dagbladet

Nettavisen

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert