Johnson og Corbyn tókust hart á í kappræðum

Þeir Johnson og Corbyn voru ekki sammála um eitt né …
Þeir Johnson og Corbyn voru ekki sammála um eitt né neitt í kappræðunum í kvöld. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, tókust hart á í kappræðum sem sýnt var frá í beinni útsendingu á breska fjölmiðlinum BBC í kvöld. Brexit, heilbrigðismál og málefni Norður-Írlands voru meðal umræðuefna sem þeir deildu um.

Corbyn sagði að Verkamannaflokkurinn myndi „binda endahnút“ á Brexit-málið með því að semja um nýjan útgöngusamning við Evrópusambandið og svo efna til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem Bretar myndu velja á milli þess að ganga út úr Evrópusambandinu á grundvelli þess samnings eða að halda kyrru fyrir innan sambandsins.

Johnson lýsti efasemdum sínum um þær fyrirætlanir og sagði „það algjörlega ljóst“ að ef sú leið yrði farin myndi breska þingið og þjóðin áfram vera „læst“ í Brexit-málinu og deilunum varðandi þær í lengri tíma þegar vilji fólksins sé í rauninni sá „að klára málið og einbeita sér að öðrum mikilvægum málum.“

Johnson sagði að hann hefði náð „frábærum samningi“ við ESB og að til standi að Bretland gangi út úr Evrópusambandinu 31. janúar á grundvelli þess samnings fái hann umboð til þess frá kjósendum eftir kosningarnar 12. desember næstkomandi.

Þá sagði Johnson að Corbyn hefði stutt írska lýðveldisherinn, IRA, og hans baráttu í fjóra áratugi og því væri einkennilegt að hlusta á málflutning Corbyn um tengsl Englands og Norður-Írlands í sambandi við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Corbyn sakaði bresku ríkisstjórnina enn og aftur um að ætla „selja“ almenningsheilbrigðiskerfið, NHS, til Bandaríkjanna. Johnson gerði lítið úr þeim fullyrðingum og sakaði Corbyn um samsæriskenningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert