Bað dóttur sína að halda nauðgun leyndri

Bob Hawke, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, lést fyrr á árinu.
Bob Hawke, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, lést fyrr á árinu. Ljósmynd/HREOC/Wikipedia

Bob Hawke, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, bað dóttur sína að halda því leyndu að henni hefði verið nauðgað af samflokksmanni föður síns. Þetta kemur fram í eiðsvarinni yfirlýsingu dótturinnar, Rosslyn Dillon, sem ástralski miðillinn New Daily hefur undir höndum.

Dillon stendur nú í málaferlum við dánarbú föður síns, en hún gerir kröfu upp á fjórar milljónir ástralskra dala (um 330 milljónir króna) í búið. Í yfirlýsingunni segir hún að Bill Landeryou, samflokksmaður Hawke úr ástralska Verkamannaflokknum, hafi nauðgað henni þrívegis árið 1983. Hún hafi sagt föður sínum frá eftir þriðja skiptið, en hann ráðið henni frá því að leita til lögreglu þar sem hann gæti ekki verið viðriðinn nein umdeild mál nú þegar hann hygði á formannsframboð í Verkamannaflokknum.

Í samtali við New Daily segir systir Dillon, Sue Pieters-Hawke, að fjölskyldan hafi vitað af ásökununum. „Hún sagði fólki þetta öllum stundum. Ég held að hún hafi fengið stuðning ættingja, en í því fólst ekki að blanda réttarkerfinu í málið.“

Hawke bar sigur úr býtum í formannskjörinu og varð forsætisráðherra síðar sama ár eftir að hafa leitt flokkinn til sigurs í þingkosningum. Hann naut mikilla vinsælda í embætti, en aldrei hefur mælst meiri ánægja með störf forsætisráðherra Ástralíu en árið 1984 er 75% aðspurðra kváðust ánægð með Hawke.

Bill Landeryou sat á þingi til ársins 1992 og eru þeir Hawke sagðir hafa átt góð samskipti allan þann tíma er Hawke gegndi embætti forsætisráðherra.

mbl.is