Salvini sniðgengur Nutella

Nei segir Salvini við Nútella. Það gengur ekki að heslihneturnar …
Nei segir Salvini við Nútella. Það gengur ekki að heslihneturnar séu tyrkneskar, að hans mati. „Notið ítalska vöru!“ AFP

Nutella? Nei, takk. Ekki nógu ítalskt, finnst nýhættum popúlískum innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini. Hann ætlar að sniðganga heslihnetusmyrjuna frægu eftir að hann varð þess áskynja að heslihneturnar væru tyrkneskar en ekki ítalskar eins og hann hafði staðið í trú um.

„Ég vil heldur hjálpa fyrirtækjum sem nota ítalska vöru. Ég vil borða ítalskt og hjálpa þar með ítölskum bændum,“ sagði Salvini á fimmtudagskvöld í Ravenna.

Salvini sagðist annars vera einhver helsti neytandi Nutella á allri Ítalíu en hann gæti ekki sætt sig við að notuð væri erlend vara til þess að framleiða þessa ítölsku sælkeravöru. Hann beindi orðum sínum að herranum Ferrero, framleiðandanum: „Kaupið ítalskan sykur, ítalskar heslihnetur, kaupið ítalska mjólk!“

Yfirlýsingar Salvinis hafa fallið í ýmist grýttan eða frjóan jarðveg með Ítölum, allt eftir því hvar menn standa á hinu pólitíska rófi. Ljóst er að með þessu spilar hann inn á þjóðerniskennd áhangenda sinna en þeim er að vonum umhugað um hag ítalskra bænda. 

Heslihnetusúkkulaðismyrjan sívinsæla er ítölsk afurð en til framleiðslunnar er heslihneta …
Heslihnetusúkkulaðismyrjan sívinsæla er ítölsk afurð en til framleiðslunnar er heslihneta leitað til vina Ítala í austri, Tyrkja. Það er ekki að furða, enda segja ítalskir miðlar að ítölsk heslihnetuframleiðsla anni ekki hinni gríðarlegu Nutella-eftirspurn. AFP

Á hitt hefur verið bent, að ítölsk heslihnetuframleiðsla annar ekki eftirspurninni: Framleidd eru 365 þúsund tonn af Nutella árlega um allan heim, sem að upplagi er auðvitað ítölsk heslihnetusmyrja, afurð á vegum þess sem byrjaði sem fjölskyldufyrirtæki Pietros Ferreros, stofnað 1946.

Salvini var innanríkisráðherra Ítalíu þar til í byrjun september. Hann sleit stjórnarsamstarfinu við Fimm stjörnu hreyfinguna í ágúst, sem þá myndaði ríkisstjórn með öðrum flokki. Fylgi Salvinis er hins vegar meira en nokkru sinni fyrr og hann bíður spenntur eftir kosningum, sem hann telur að komi brátt, enda standi nýja ríkisstjórnin ekki traustum fótum. Uppátæki sem þetta nýjasta eru ekki annað en vatn á myllu Salvinis, enda fær hann með þessu mikla fjölmiðlaathygli þar syðra.

mbl.is