Hlaut þrjátíu og þrefaldan lífstíðardóm

Joseph McCann, „hættulegasti maður Bretlands“, var í dag dæmdur í …
Joseph McCann, „hættulegasti maður Bretlands“, var í dag dæmdur í þrjátíu og þrefalt lífstíðarfangelsi fyrir nauðganir og önnur kynferðisafbrot auk mannráns. Hann neitaði sök og var ekki viðstaddur réttarhöldin þar sem hann sagðist vera slæmur í baki. AFP

Breskur raðnauðgari sem lýst hefur verið sem „hættulegasta manni Bretlands“ var í dag dæmdur í þrjátíu og þrefaldan lífstíðardóm fyrir glæpi sína, sem meðal annars telja á þriðja tug nauðgana á tveggja vikna tímabili. 

Við dómsuppkvaðningu sagði dómarinn Joseph McCann huglausan, ofbeldisfullan hrotta og barnaníðing. Þá hafi hann aldrei sýnt nein merki um iðrun eða samkennd með fórnarlömbum sínum við meðferð málsins. McCann er að mati dómarans dæmigerður siðblindingi. 

Yngsta fórnarlamb McCann var 11 ára þegar brotið átti sér stað en elsta 71 árs. Sjálfur er hann 34 ára. Flest brotin áttu sér stað í apríl á þessu ári. 

Kviðdómur sakfelldi McCann af 37 ákærum um nauðganir og önnur kynferðisafbrot auk mannráns. McCann getur í fyrsta lagi sótt um reynslulausn eftir þrjátíu ár. Hann neitaði sök og var ekki viðstaddur réttarhöldin þar sem hann sagðist vera slæmur í baki.

mbl.is