Framdi fjöldamorð á sjúkrahúsi

Lögreglan í Tékklandi er með mikinn viðbúnað. Hér sjást lögreglumenn …
Lögreglan í Tékklandi er með mikinn viðbúnað. Hér sjást lögreglumenn við sjúkrahúsið í borginni Ostrava, sem er í austurhluta Tékklands. AFP

Vopnaður maður skaut sex til bana á háskólasjúkrahúsi í borginni Ostrava í Tékklandi í dag. Forsætisráðherra landsins hefur greint frá þessu, en byssumaðurinn tók eigið lífið í kjölfarið. 

Lögregla var kölluð til eftir að tilkynning barst kl. 7:19 að staðartíma í morgun (kl. 6:19 að íslenskum tíma) en árásarmaðurinn hóf skothríð í biðstofu á sjúkrahúsinu. 

Búið er að loka öllu sjúkrahúsinu í kjölfar árásarinnar, að því er BBC greinir frá. 

Lögreglan hefur birt þessa mynd af manninum sem er grunaður …
Lögreglan hefur birt þessa mynd af manninum sem er grunaður um ódæðið. AFP

Læknir á staðnum sagði í samtali við fréttavefinn Aktualne í Tékklandi að starfsfólk hefði læst sig inni á gangi og biði eftir að neyðarástandinu yrði aflétt. 

Umfangsmikil leit að byssumanninum stóð yfir voru m.a. þyrlur notaðar við leitina. Lögreglan tekur fram að búið sé að tryggja svæðið. Lögreglan jók einnig eftirlit og öryggisgæslu við önnur svæði sem þóttu koma til greina sem skotmörk, s.s. skóla, verslunarmiðstöðvar og önnur sjúkrahús. 

Lögreglan hefur einnig birt þessa mynd, sem eftirlitsmyndavél tók, sem …
Lögreglan hefur einnig birt þessa mynd, sem eftirlitsmyndavél tók, sem sýnir manninn inni í sjúkrahúsinu í morgun. AFP

Að sögn lögreglu notaði maðurinn skammbyssu þegar hann réðist á fólkið. Hann beindi henni svo að sjálfum sér og framdi sjálfsvíg að sögn lögreglu. Ekki er vitað hvað manninum gekk til, en hann var 42 ára gamall. 

mbl.is