Níu ára undrabarn hætt í háskóla

Laurent Simons.
Laurent Simons. AFP

Níu ára belgískur drengur sem var á góðri leið með að verða yngsti útskriftarnemi úr háskóla frá upphafi er hættur námi sínu við háskólann í Eindhoven í Hollandi.

Ástæðan er sú að deilt var um hvenær hann ætti að útskrifast.

Laurent Simons komst í fréttirnar um allan heim í síðasta mánuði þegar allt leit út fyrir að hann myndi ljúka BA-prófi sínu í rafmagnsverkfræði fyrir lok þessa árs. Þar með hefði hann orðið heimsins yngsti útskriftarneminn úr háskóla, fyrir tíu ára aldur.

En síðastliðinn mánudag kom babb í bátinn þegar háskólinn greindi Laurent og foreldrum hans frá því að ekki væri ráðlegt að hann útskrifaðist á þessum tíma vegna þess fjölda prófa sem hann þyrfti að klára fyrir afmælið sitt 26. desember.

AFP

„Laurent er ótrúlega hæfileikaríkur drengur sem ferðast í gegnum námið sitt á hraða sem ekki hefur áður þekkst,“ sagði í yfirlýsingu frá háskólanum.

Þrátt fyrir að óhugsandi væri að hann myndi ljúka náminu miðað við upphaflega áætlun sagðist háskólinn hafa boðið honum „sérstaklega skjóta lausn sem felur í sér að hann lýkur námi um mitt ár 2020“.

Þrátt fyrir þetta ákváðu foreldrar drengsins að þiggja ekki þetta boð og sögðu í staðinn skilið við háskólann.

„Allt var í góðum gír þangað til í síðustu viku og núna ætla þeir allt í einu að fresta þessu um sex mánuði,“ sagði Alexander Simons, faðir Laurents litla, í samtali við Reuters.

Hann grunar að háskólinn hafi verið að bregðast við áætlunum fjölskyldunnar um að láta drenginn sækja framhaldsnám við annan háskóla.

mbl.is