Þrjóskir pólfarar vörðust í vök

Børge Ousland og Mike Horn. Frosnir, aðframkomnir og örmagna, en …
Børge Ousland og Mike Horn. Frosnir, aðframkomnir og örmagna, en sælir. Styttist í lokapunktinn og björgunarskipið Lance eftir hátt í 1.800 kílómetra ferðalag, mest af því á tveimur jafnfljótum. Ljósmynd/Børge Ousland

Undir ágústlok hittust Norðmaðurinn Børge Ousland og Svisslendingurinn Mike Horn í Nome í Alaska, báðir vanir pólfarar og ævintýramenn. Ekki var sá fundur fyrir neina tilviljun heldur var vílmögum mál að vinna erfiði. Þeir settu sér það markmið að sanna að nú orðið væri hægt, í ljósi hnattrænnar hlýnunar, að sigla og ganga frá Alaska til norsku eyjarinnar Svalbarða yfir Norðurpólinn enda ísing á svæðinu aldrei minni en nú á sögutíma.

„Þeir komust að björgunarskipinu Lance, sem var ætlunin, nær Svalbarða var ekki hægt að komast þar sem ísinn nær ekki lengra en góðan spöl frá nyrðri enda Svalbarða.“ Þetta segir Lars Ebbesen leiðangursstjóri í samtali við mbl.is í gærkvöldi. Þrátt fyrir titilinn tók Ebbesen ekki beinan þátt í pólförinni, hann sat í Ósló allan tímann en hafði yfirumsjón með birgðaflutningum og öryggismálum enda hefur hann sjálfur lagt að baki 40 ár af ferðalögum um torfæra stigu.

Hátt í 2.000 km leið

Eftir miklar hrakfarir í vikunni sem leið komust Ousland og Horn að björgunarskipinu en þá hafði vök nokkur um nokkurra daga skeið tálmað þeim leiðina að björginni og endaði Horn á því að falla í vökina á föstudaginn en komst upp á ísinn á ný og að lokum skiluðu þeir félagar sér um borð í Lance um miðnæturbil á laugardaginn, eftir að hafa siglt og gengið á skíðum yfir Norðurpólinn vegalengd sem Ebbesen leiðangursstjóri telur milli 1.700 og 1.800 kílómetra.

Neyttu meðan á nefinu stendur sagði kerlingin í þjóðsögunni. Hér …
Neyttu meðan á nefinu stendur sagði kerlingin í þjóðsögunni. Hér hefur allt að 40 stiga frost tekið sinn toll af nefi Børge Ousland sem þó lætur engan bilbug á sér finna og hótaði að elda súpu í sokkunum sínum. Ljósmynd/Mike Horn

„Þeir komust í um það bil 500 kílómetra fjarlægð frá Pólnum [Alaskamegin frá] og gengu svo þaðan. Þú getur ímyndað þér hvað þeir voru fegnir að komast um borð í björgunarskipið,“ segir Ebbesen og hláturinn kumrar í honum. „Þetta er engin smáræðis vegalengd.“

Hvað tekur þá við hjá þeim förunautunum nú eftir að hafa farið um þá vegu sem enginn hefur áður gert svo vitað sé? „Ég veit ekki hvað er á döfinni núna alveg næstu daga hjá þeim, sennilega bara að slappa af, en Ousland er jú atvinnukafari og jöklafari sem vinnur við að ferðast, kafa og halda fyrirlestra um ferðir sínar árið um kring,“ segir Ebbesen frá.

Sýna fram á loftslagsáhrif

„Hjá Mike [Horn] er þetta hluti vegferðar hans sem heitir Pole2Pole. Hún gengur út á að ferðast kringum jörðina á seglbáti og fara um hvort tveggja Norðurpólinn og Suðurskautslandið. Snekkjuklúbbur Mónakó og Mercedes-Benz eru styrktaraðilar hans, hann lagði af stað frá Afríku, sigldi þaðan til Suðurskautslandsins og þaðan gegnum Asíu til norðurslóða og mun svo enda í Evrópu,“ segir Ebbesen frá og nær með yfirveguðum talanda sínum að láta för þessa hljóma eins og strætóferð úr Garðabæ niður á Lækjartorg.

Rýrt mun verða fyrir honum smámennið. Børge Ousland stikar jaka …
Rýrt mun verða fyrir honum smámennið. Børge Ousland stikar jaka á milli við norðra kaldan veldisstól og þverneitar að panta einhverja björgunarþyrlu. Þegar Ousland er ekki að sigla og ganga 1.800 kílómetra leið á skíðum stundar hann köfun, jöklafarir og heldur fyrirlestra um allan heim um þessa ástríðu sína. Ljósmynd/Mike Horn

„Tilgangurinn með þessu verkefni þeirra Ousland er meðal annars að sýna fram á áhrif loftslagsbreytinga á ísbúskap heimsins, að árið 2019 sé hægt að sigla á litlu fleyi og ganga á skíðum 1.800 kílómetra vegalengd frá Noma í Alaska til Svalbarða í Noregi. Ísinn hefur aldrei verið jafn lítill,“ segir Ebbesen að lokum.

Nóg hefur verið skrifað um svaðilförina í norska fjölmiðla og hafa Norðmenn ekki sparað athugasemdirnar í þar til gerðum kerfum stafrænna miðla. Einhverjir hafa sett spurningarmerki við að hægt sé yfir höfuð að fara mestan hluta leiðarinnar gangandi á skíðum sé ísinn orðinn svo rýr. Aðrir hafa vísað til falsfrétta, hugtaks sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sett rækilega á kortið gegnum Twitter. Þeir hinir sömu segja þá að Ousland og Horn hafi í raun aldrei verið á ystu nöf, ein SMS-skilaboð hefðu nægt til að þyrlan kæmi þöndum vængjum eftir ísmönnunum.

Það SMS var þó aldrei sent.

Hraustir menn hlýða hreystikallinu enn. Vistirnar dregnar um takmarkalausa ísvíðáttuna.
Hraustir menn hlýða hreystikallinu enn. Vistirnar dregnar um takmarkalausa ísvíðáttuna. Ljósmynd/Børge Ousland eða Mike Horn

NRK

NRK II (Horn í vökinni)

NRK III (var leiðangurinn ein stór falsfrétt?)

VG (annað eins aldrei gert)

VGII (ágæt samantekt fararinnar)

Dagbladet (loks um borð í Lance)

Aftenposten („getum eldað súpu í sokkunum okkar“)

TV2 (nóttin langa)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert