„Mér finnst best að þið hatið mig“

Hér fannst Sunniva heitin Ødegård hrottalega myrt við göngustíg í …
Hér fannst Sunniva heitin Ødegård hrottalega myrt við göngustíg í smábænum Varhaug í Rogaland að morgni 30. júlí í fyrra og var þar framið slíkt afbrot að íbúar bæjarins höfðu aldrei staðið frammi fyrir öðru eins. Unglingur, sem þá var 17 ára, var fljótlega handtekinn eftir ábendingum vitna og sór hann af sér eftir bestu getu auk þess sem faðir hans var handtekinn við rekstur málsins eftir að í ljós kom að hann hafði þvegið blóð úr fötum sonar síns og falið blóðugan klaufhamar. Ákærði var í dag dæmdur til 12 ára varðveislu og óvíst að hann strjúki nokkurn tímann um frjálst höfuð á ný. Ljósmynd/Jon Ingemundsen/Stavanger Aftenblad

Nítján ára gamall maður vandaði ekki kveðjurnar þegar honum var boðið að hafa uppi lokaorð sín áður en Lögmannsréttur Gulaþings kvað upp dóm yfir honum í dag fyrir að myrða 13 ára gamla stúlku, Sunnivu Ødegård, á hrottalegan hátt með klaufhamri, svala sér kynferðislega á líki hennar og reyna að lokum að kveikja í því í smábænum Varhaug í Rogaland við vesturströnd Noregs aðfaranótt 30. júlí í fyrra.

Sakborningur tók sér tveggja mínútna umhugsunarfrest áður en hann leit upp og sagði blákalt við viðstadda og án þess að minnstu tilfinningar væru þar greinanlegar: „Ég hef ekkert að segja við aðstandendur. Mér finnst best að þið séuð mér öll reið og að þið hatið mig fyrir það sem ég hef gert.“

Dómsorðið var lesið í dag, 12 ára varðveisludómur [n. forvaring] með átta ára lágmarkstíma, sjónarmun þyngri dómur en þau 11 ár og sjö ára lágmark sem honum voru gerð í Héraðsdómi Jæren í Sandnes í Rogaland 26. júní í sumar.

Varðveisluúrræðið er það sama og fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik var dæmt, réttarúrræði sem stofnað var til árið 2001 og tók við af því sem hét lífstíðarfangelsi og var numið úr norskum hegningarlögum árið 1981. Í millitíðinni varð til úrræði sem hét öryggisgæsla [n. sikring] og lagt var af við tilkomu forvaring-úrræðisins.

 Varðveisludóm í Noregi hljóta þeir afbrotamenn sem svo er ástatt um að hugsanlega sé aldrei hægt að hleypa þeim út í mannlegt samfélag á ný. Er þá hægt, að lágmarkstímanum afplánuðum, að framkvæma mat geðfróðra á dæmdum einstaklingi og án nýrrar ákæru framlengja afplánunartíma svo lengi sem hætta er talin stafa af brotamanninum. Með öðrum orðum er þar á ferð úrræði sem gerir norsku réttarkerfi kleift að hleypa fólki, sem óbetranlegt telst, aldrei aftur út úr fangelsi eða annarri stofnun.

„Drápið var kaldrifjað, skipulagt og tók góða stund þarna um nóttina,“ sagði Nina Grande héraðssaksóknari í lokaræðu sinni fyrir lögmannsréttinum þegar hún fór fram á varðveisludóm yfir ákærða vegna hættunnar á því að hann endurtæki háttsemina. „Hann svaraði fyrir sig með því að hann hefði myrt 13 ára barn vegna reiði í garð foreldra hans. Sá framburður einn segir að hættan á endurtekinni háttsemi er veruleg,“ sagði Grande enn fremur.

Dómurinn féllst á kröfu saksóknara með eftirtöldum rökstuðningi: „Ekkert bendir til þess eins og sakir standa að hann [ákærði] hafi áttað sig á alvöru verknaðarins. [...] Velferð samfélagsins, ekki síst hvað önnur börn snertir, vegur hér þungt. Aðrir borgarar, börn ekki síst, eiga heimtingu á því að samfélagið veiti þeim vernd gagnvart einstaklingum sem vitað er að háski stafar af.“

Dæmdi sætti sex vikna geðrann­sókn við Sand­viken-sjúkra­húsið í Ber­gen í októ­ber og nóv­em­ber í fyrra þar sem teymi tveggja geðlækna og átta hjúkr­un­ar­fræðinga og sjúkra­liða kom að geðmati hans. Þrír geðlæknar, dr. And­ers Hartwig yf­ir­lækn­ir, Tor Ketil Lar­sen og Dan Tung­land, notuðu heilan dag, 3. júní, til að gera ítarlega grein fyrir mati sínu við Héraðsdóm Jæren, og mátu greind­ar­vísi­tölu ákærða um 80 stig, en árið 2014 hafði hún verið met­in 70 – 75 stig sem telst á mörk­um greind­ar­skerðing­ar (e. bor­derl­ine impaired ). 

Komust lækn­arn­ir að þeirri niður­stöðu að ákærði hefði verið meðvitaður um gerðir sín­ar (n. til­reg­nelig) á verknaðar­stundu, en verið í neyslu­tengdu geðrofi sem telst í skiln­ingi norsks refsirétt­ar vit­und­ar­skerðing (n. be­vis­sthets­for­styr­rel­se), en ekki full­komið geðveikis­ástand sem tækt teld­ist sem ábyrgðarleys­is­ástæða við mann­dráp.

Vitað var að ákærði, í ljósi hans eigin framburðar, hafði verið í langvar­andi neyslu e-taflna og kanna­bis­efna dag­ana fyr­ir víg Sunnivu auk þess sem hann greindi rétt­in­um frá miklum kvíða sín­um og þrá­hyggju sem meðal ann­ars kom fram í því að hann taldi aðra geta lesið hugs­an­ir hans.

Það var Stavanger Aftenblad sem fyrst greindi frá dómnum í dag en blaðið rekur læsta fréttaþjónustu á vefsíðu sinni.

NRK

Bergens Tidende

Dagbladet

Adressa 

Sunnmøringsposten

mbl.is