Corbyn ekki sætt ef útgönguspár rætast

Niðurstöður útgönguspárinnar.
Niðurstöður útgönguspárinnar. AFP

Verði niðurstöður bresku þingkosninganna í samræmi við útgönguspár er Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, ekki sætt í embætti. Þetta segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Útgönguspár benda til þess að Íhaldsflokkurinn hljóti 368 þingsæti af 650, en Verkamannaflokkurinn aðeins 191. Spurður hvað skýri slæmt gengi Verkamannaflokks segir Baldur einkum tvennt koma til. „Það fyrsta er ómarkviss stefna flokksins er kemur að brexit. Flokkurinn hefur farið úr einu í annað og óljóst hvað Corbyn sjálfum finnst. Hann nýtur einfaldlega ekki trausts,“ segir Baldur. Hin meginástæðan sé sú að Corbyn hafi í leiðtogatíð sinni fært flokkinn of langt til vinstri, með fyrirheitum um þjóðnýtingu fyrrverandi ríkisfyrirtækja. „Það er ljóst að sú stefna höfðar ekki til meginþorra kjósenda,“ segir Baldur.

Baldur segir hefð fyrir því í Bretlandi að flokksleiðtogar segi af sér tapi þeir kosningum jafnilla og nú stefnir í. Hins vegar sé ómögulegt að segja til um hvað Corbyn geri, enda sé hann óútreiknanlegur stjórnmálamaður. „Þar fyrir utan hafa bresk stjórnmál ekki beint fylgt hefðinni að undanförnu,“ segir Baldur, en bætir við að erfitt verði fyrir Corbyn að standa af sér þrýsting innan eigin flokks.

Hjónin Jeremy Corbyn og Laura Alvarez kusu í morgun.
Hjónin Jeremy Corbyn og Laura Alvarez kusu í morgun. AFP

Boris náð að sameina flokkinn

Að sögn Baldurs hefur Boris Johnson, leiðtoga íhaldsmanna, á einhvern hátt tekist að sameina flokkinn eftir að hafa hrakið á brott þá sem vildu fara hægar í sakirnar varðandi útgöngu úr Evrópusambandinu. „Honum hefur tekist að gera forystuna einsleitari, og með því að leggja svo mikla áherslu á að fara úr Evrópusambandinu nær hann til fólks sem áður hefur kosið Breska sjálfstæðisflokkinn.“

Verði niðurstöður kosninganna í samræmi við útgönguspár segist Baldur ekki telja að Boris muni eiga í erfiðleikum með að fá útgöngusamning sinn samþykktan í breska þinginu, en samkvæmt núgildandi áætlun ganga Bretar úr sambandinu 31. janúar. 

Sturgeon stimplar sig inn sem leiðtogi stjórnarandstöðunnar

Samkvæmt útgönguspá fær Skoski þjóðarflokkurinn 55 þingsæti, og bætir þá við sig 20 þingsætum frá síðustu kosningum. „Það stefnir allt í stórsigur Skoska þjóðarflokksins, og svo virðist sem Nicole Sturgeon [leiðtogi flokksins] sé að stimpla sig enn frekar inn sem einn helsti stjórnarandstöðuleiðtoginn í Bretlandi,“ segir Baldur. Ljóst sé að Verkamannaflokkurinn þurfi að vanda valið á næsta leiðtoga, ætli flokkurinn sér að geta keppt við Skoska þjóðarflokkinn, en Verkamannaflokkurinn réð löngum lögum og lofum í Skotlandi.

Aðspurður segir Baldur ljóst að skoskir sjálfstæðissinnar muni eflast enn frekar verði þetta niðurstöður kosninganna. Hins vegar verði flokkurinn að varast að ganga of hart fram. Það hafi komið í bakið á honum eftir tapið í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2014.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
mbl.is