Þóttist vera mamma hans í ökuprófi

Heitor Schiave var handtekinn í gervi móður sinnar.
Heitor Schiave var handtekinn í gervi móður sinnar. Mynd/Skjáskot af ljósmynd brasilísku lögreglunnar

43 ára karlmaður hefur verið handtekinn í norðurhluta Brasilíu fyrir að klæða sig upp eins og móðir hans og taka ökuprófið fyrir hana.

Þegar Maria, sextug móðir Heitor Schiave, féll á ökuprófinu í þriðja sinn sagði bifvélavirkinn hingað og ekki lengra.

Klæddur blómaskreyttri blússu og með naglalakk, andlitsförðun og hárkollu, ók hann um í bænum Nova Mutum Paraná, eins og ekkert væri eðlilegra, og um tíma leit úr fyrir að áform hans væru að fara að ganga upp, að sögn BBC

Fljótlega vöknuðu þó upp grunsemdir um að konan á bak við stýrið væri ekki sú sama og talið var í fyrstu.

„Hann reyndi að vera eins eðlilegur og hann gat. Hann var með mikið af farða og neglurnar á honum voru vel lakkaðar og hann var með skartgripi,“ sagði ökukennarinn Aline Mendonça við G1.

Ökukennari leiðbeinir nemanda sínum. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum …
Ökukennari leiðbeinir nemanda sínum. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.

Hringt var í lögregluna, sem handtók manninn í ökuskólanum fyrir svik og að nota persónueinkenni annarrar manneskju.

„Hann er búinn að játa. Hann játaði að hann væri ekki umrædd kona heldur sonur hennar, sonur hennar sem væri að þykjast vera mamma hans svo hún gæti náð verklega ökuprófinu,“ sagði kennarinn.

Móðir Schiave mun ekki hafa vitað af plottinu.

mbl.is