Travis Runnels tekinn af lífi

Travis Runnels var tekinn af lífi í nótt í Texas.
Travis Runnels var tekinn af lífi í nótt í Texas. AFP

Dæmdur morðingi var tekinn af lífi í Texas í nótt og er hann 22. fanginn sem tekinn er af lífi í Bandaríkjunum í ár. 

Travis Runnels, 46 ára, var úrskurðaður látinn klukkan 19:26 að staðartíma, klukkan 01:26 að íslenskum tíma, en fyrr um kvöldið hafði Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnað beiðni um að aftökunni í Huntsville-fangelsinu norður af Houston yrði frestað. Runnels var tekinn af lífi með banvænni lyfjasprautu. 

Runnels fékk sjötíu ára fangelsisdóm árið 1997 fyrir vopnað rán. Árið 2003 skar hann umsjónarmann í fangelsinu, Stanley Wiley, á háls og tveimur árum síðar játaði hann sök við réttarhöld í málinu og var dæmdur til dauða.

Lögmenn hans reyndu síðar að fá refsingunni hnekkt. Töldu verjendur hans að ekki hafi verið horft til atvika í barnæsku honum til málsbóta við réttarhöldin. Auk þess hafi sérfræðingur sem bar vitni. A.P. Merillat, borið ljúgvitni.

Verjendurnir sökuðu Merillat um að hafa logið þegar hann sagði kviðdómi að ef Runnels fengi lífstíðardóm í stað dauðadóms yrði honum heimilað að flækjast um fangelsið og skapa þar hættu fyrir aðra.

Dauðarefsing Runnels byggði á ljúgvitni sérfræðings, sagði einn af verjendum Runnels í beiðninni til Hæstaréttar. Yfirvöld í Texas sögðu aftur á móti að kviðdómurinn hefði dæmt Runnels til dauða hvort sem Merillat hefði borið vitni eður ei vegna sögu hans um ofbeldisfullar árásir innan veggja fangelsisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert