Lést er mannlaus bíll rann til

Bíllinn var af gerðinni Lexus IS300.
Bíllinn var af gerðinni Lexus IS300. Ljósmynd/Jaye Whitmire/Wikipedia

Karlmaður í New York lést í vikunni eftir að hafa klemmst milli tveggja mannlausra bíla á bílasölu. Maðurinn, Michael Kosanovich, stóð á milli tveggja kyrrstæðra bíla, sem báðir voru af gerð Toyota Lexus IS300, árgerð 2002. Hafði hann hug á að kaupa annan þeirra.

Tildrög slyssins voru þau að eigandi annars þeirra ræsti hann óvart með bíllyklinum með þeim afleiðingum að hann rann til og klemmdi manninn, sem kom engum vörnum við þrátt fyrir tilraunir nærstaddra til að koma honum til aðstoðar.

Að sögn lögreglunnar í New York hlaut hann áverka á búk og fótleggjum, og lést af sárum sínum stuttu eftir komuna á spítala. Í samtali við BBC vottar talskona Toyota í Bandaríkjunum aðstandendum hins látna samúð. Bendir hún á að 2002-árgerð Lexus-bílsins hafi ekki komið með fjarræsingarbúnaði, og því hljóti honum að hafa verið komið fyrir í bílnum eftir á.

Eftir stendur þó að fjölmargir bílar eru búnir slíkri fjarræsingu og hefur slysið vakið upp spurningar um ágæti þess búnaðar, og tilgang þess að geta ræst bíl án þess að sitja undir stýri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert