Lést í gassprengingu

Slökkvistarfi að ljúka rúmum tveimur tímum eftir að sprengingin varð, …
Slökkvistarfi að ljúka rúmum tveimur tímum eftir að sprengingin varð, 78 ára gamall maður lést og 15 slösuðust auk þess sem rýma þurfti leikskóla í nágrenninu vegna reykjarmakkarins frá húsinu. Ljósmynd/Slökkviliðið í Blankenburg

Einn er látinn og minnst 15 slasaðir eftir að gassprenging varð í fjölbýlishúsi í Blankenburg, um 150 kílómetra vestur af Berlín í Þýskalandi, laust fyrir klukkan níu í morgun að staðartíma. 

Hinn látni var 78 ára gamall karlmaður, búsettur í íbúðinni þar sem sprengingin varð í kjölfar gasleka. Samkvæmt frétt dagblaðsins Mitteldeutscher Rundfunk hafði maðurinn safnað skotfærum frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar þótt ekki sé vitað hvort þau hafi valdið sprengingunni.

Dagblaðið Bild greinir frá því að leki hafi komið að própangaskúti í íbúð mannsins. Loka þurfti leikskóla í nágrenninu og flytja 100 börn þaðan vegna reykjarmakkarins sem barst um hverfið. Alls komu 160 manns frá lögreglu, slökkvi- og sjúkraliði að aðgerðum á vettvangi.

mbl.is