Rekinn úr flokknum hálfu ári eftir afhjúpun

Heinz-Christian Strache.
Heinz-Christian Strache. AFP

Austurríski Frelsisflokkurinn hefur rekið Heinz-Christian Strache, fyrrverandi formann, úr flokknum. Strache gegndi embætti varakanslara í ríkisstjórn Þjóðarflokksins og Frelsisflokksins, en sagði af sér embætti í maí eftir að þýsk­ir fjöl­miðlar greindu frá því, og birtu myndbönd, að Strache hefði lofað meint­um rúss­nesk­um fjár­festi að fá aðstoð við gerð rík­is­samn­inga gegn því að fá póli­tísk­an stuðning.

Þetta átti sér stað á fundi á spænsku eyj­unni Ibiza sem var myndaður með leynd rétt fyr­ir þing­kosn­ing­arn­ar árið 2017. Rúss­neski auðjöf­ur­inn reynd­ist fréttamaður undir fölsku flaggi.

Í kjölfarið var boðað til nýrra þingkosninga í Austurríki, en þar tapaði Frelsisflokkurinn tíu prósentustigum frá kosningunum tveimur árum áður. Hófust þá flóknar stjórnarmyndunarviðræður sem enn sér ekki fyrir endann á. Á blaðamannafundi í dag boðuðu leiðtogar Frelsisflokksins að nú skyldi bundinn endi á „Strache-kaflann“ sem hefur reynst flokknum erfiður.

Strache hafði, er hann sagði af sér formennsku í maí, boðað að hann hygðist segja skilið við stjórnmál, en á föstudag greindi hann frá því á Facebook að sökum stuðnings sem hann hefði fundið fyrir síðustu vikur væri hann að „íhuga endurkomu í stjórnmál árið 2020“. Kemur ákvörðun flokksleiðtoga í kjölfar þess.

mbl.is