Baráttan gegn Brexit töpuð

Michael Heseltine, fyrrverandi þingmaður og ráðherra breska Íhaldsflokksins.
Michael Heseltine, fyrrverandi þingmaður og ráðherra breska Íhaldsflokksins. AFP

Baráttan fyrir því að Bretland verði áfram innan Evrópusambandsins er töpuð í kjölfar þingkosninganna í landinu sem fram fóru á fimmtudaginn. Þetta segir Michael Heseltine, lávarður og fyrrverandi ráðherra og þingmaður breska Íhaldsflokksins, en hann hefur áratugum saman verið einn helsti stuðningsmaður veru Bretlands í sambandinu.

Helsta stefnumál Íhaldsflokksins, undir forystu Boris Johnsons, fyrir kosningarnar var að Bretland gengi úr Evrópusambandinu (brexit) í lok næsta mánaðar í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðisins sem fram fór í landinu 2016. Flokkurinn náði afgerandi meirihluta í neðri deild breska þingsins í kosningunum og vegurinn út úr sambandinu þar með greiður.

Heseltine, sem var meðal annars ráðherra í forsætisráðherratíð Margaret Thatcher, hefur barist ötullega gegn fyrirhugaðri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og gekk svo langt að hvetja fólk til þess að kjósa Frjálslynda demókrata í kosningunum til þess að reyna að stöðva útgönguna. Fyrir vikið var hann rekinn úr Íhaldsflokknum.

Spurður hvort hann teldi að í kjölfarið færi í gang barátta fyrir því að Bretland gengi aftur í Evrópusambandið er haft eftir Heseltine í frétt Daily Telegraph að hann sjái ekki fyrir sér að það verði aftur á dagskránni að minnsta kosti næstu 20 árin. Það þýddi ekkert að fara í kringum hlutina. „Við höfum tapað, brexit mun verða og við verðum að lifa með því.“

mbl.is