Tugir manna handteknir á Schiphol

Mótmælendur voru leiddir út af flugvellinum og upp í rútu.
Mótmælendur voru leiddir út af flugvellinum og upp í rútu. AFP

Hollenska lögreglan handtók í dag tugi mótmælenda á Schiphol-flugvelli í Amsterdam, en þeir voru samankomnir til að krefjast þess að flugvöllurinn gripi til aðgerða til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Á bilinu 100 til 150 mótmælendur höfðu safnast saman til aðgerðanna í verslunarkjarna í komusal flugvallarins og trufluðu þar starfsemi vallarins til að vekja athygli á málstaðnum. Mótmælendur voru færðir í rútu að mörkum Haarlemmermeer, sveitarfélagsins sem Schiphol tilheyrir, en þar voru þeir látnir lausir.

Utan flugvallarins fóru einnig fram lögleg mótmæli á vegum Grænfriðunga og héldu mótmælendur á skiltum sem á stóð: „Skattleggið flug, takið lestir.“

Schiphol er einn stærsti flugvöllur Evrópu. Flogið er til 326 staða, og fór 71 milljón farþega um völlinn í fyrra, 3,7 prósentum fleiri en árið áður. „Schiphol er einn stærsti flugvöllur í Evrópu og samt vilja þeir stækka hann enn frekar. Þetta er ekki eðlilegt,“ hefur AFP eftir mótmælanda.

Að sögn talsmanna flugvallarins hefur flugvöllurinn þegar sett sér umhverfisstefnu, en í henni felst að völlurinn sjálfur verði „kolefnishlutlaus“ árið 2030, að undanskildu fluginu sjálfu, og að flugið verði einnig kolefnishlutlaust árið 2050.

Lögregla umkringir mótmælendur á Schiphol-flugvelli í dag.
Lögregla umkringir mótmælendur á Schiphol-flugvelli í dag. AFP
mbl.is