14 látnir eftir rútuslys

Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. AFP

Hið minnsta fjórtán létust þegar farþegarúta valt niður fjallshlíð í Nepal í morgun. Um borð í rútunni voru 32 pílagrímar. 

Rútan valt 70 metra niður hlíðina í Sindhupalchowk-héraði, um 80 kílómetra norðaustur af höfuðborginni Katmandú. 

12 létust á slysstað og tveir til viðbótar létust af sárum sínum á sjúkrahúsi. Þá eru 18 farþegar slasaðir. Óvíst er hvort bílstjóri rútunnar er á meðal þeirra sem fá nú aðhlynningu á sjúkrahúsi eða hvort hann hafi yfirgefið vettvang. Af hinum látnu eru fjögur börn.

Farþegarnir voru á leið frá Kalinchowk Bhagawati, vinsælu hofi hindúa, sem stendur um 4.000 metrum yfir sjávarmáli. Orsök slyssins liggur ekki fyrir, en lögregla telur að um glannalegan akstur hafi verið að ræða.

mbl.is