Sleppur við að synda nakin í Loch Ness

Ruth Davidson, fyrrverandi leiðtogi skoskra íhaldsmanna.
Ruth Davidson, fyrrverandi leiðtogi skoskra íhaldsmanna. AFP

Hefði Skoska þjóðarflokknum tekist að fá 50 þingmenn kjörna í Skotlandi af þeim 59 þingsætum sem kosið var um í þingkosningunum í Bretlandi á fimmtudaginn hefði það sett Ruth Davidson, fyrrverandi leiðtoga skoskra íhaldsmanna, í erfiða stöðu.

Davidson hafði heitið því fyrir kosningarnar að ef Skoska þjóðarflokknum tækist að fá 50 þingmenn kjörna í Skotlandi myndi hún skella sér til sunds nakin í stöðuvatninu Loch Ness hvar sumir telja að skrímsli frá fornsögulegum tíma eigi heima.

Hins vegar fóru leikar svo að Skoski þjóðarflokkurinn fékk 48 þingmenn kjörna í Skotlandi og fyrir vikið þarf Davidson ekki að standa við heit sitt. Hún hefur þó sagt að hún hafi verið nokkuð örugg um að hún þyrfti ekki að standa við það að skella sér til sunds.

Fjallað er um málið á fréttavef dagblaðsins The Scotsman.

mbl.is