Stöðva framleiðslu á MAX-vélunum tímabundið

Frá verksmiðju Boeing í Renton í Washington-ríki. Ekki kemur fram …
Frá verksmiðju Boeing í Renton í Washington-ríki. Ekki kemur fram í yfirlýsingu fyrirtækisins hvenær viðbúið sé að framleiðsla hefjist á ný. AFP

Boeing tilkynnti í kvöld að fyrirtækið myndi stöðva framleiðslu á Boeing 737 MAX-þotunum tímabundið í upphafi næsta árs. Ekki kemur fram hvenær fyrirtækið gerir ráð fyrir að hefja framleiðsluna aftur. Níu mánuðir eru frá því að vélarnar voru kyrrsettar á heimsvísu eftir tvö slys sem kostuðu 346 mannslíf.

Fyrirtækið, sem er með 737-verksmiðjur sínar í borginni Renton í grennd við Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna, segir að engum þeirra 12.000 starfsmanna sem þar vinna verði sagt upp vegna þessara aðgerða.

Í yfirlýsingu Boeing segir að fyrirtækið muni halda áfram að uppfæra framleiðsluáætlanir sínar, fari svo að MAX-vélarnar verði kyrrsettar í lengri tíma en búist var við.

Seattle Times fjallar um þetta mál í kvöld og hefur eftir innanbúðarmanni hjá Boeing, sem lætur ekki nafns síns getið, að engin tímasetning hafi verið sett á það hvenær framleiðslan geti hafist á ný þar sem ákvörðun um það hvenær þoturnar geti farið aftur í loftið sé ekki í höndum fyrirtækisins, heldur flugmálayfirvalda.

Boeing hafði áður gefið það út að vonast væri til þess að vélarnar kæmust aftur í loftið fyrir lok þessa árs, en í síðustu viku sagði Steve Dickson, æðsti stjórnandi bandarískra flugmálayfirvalda, að það væri óraunhæft að vélarnar kæmust í notkun fyrr en á komandi ári. 

mbl.is