Samþykkt að ákæra Donald Trump

Meirihluti þingmanna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt að ákæra Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir að misbeita valdi sínu með 230 atkvæðum gegn 197. Atkvæðagreiðslan fór nokkurn veginn eftir flokkslínum en þrír þingmenn Demókrataflokksins greiddu ekki atkvæði með ákærunni.

Demókratar hafa haft meirihluta í fulltrúadeildinni frá því í janúar á þessu ári. Ákæran er í tveimur liðum. Fyrri hlutinn snýst um að Trump hafi misbeitt valdi sínu með því að reyna að fá erlenda ríkisstjórn til þess að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári. Síðari hlutinn snýr að því að forsetinn hafi hindrað fulltrúadeildina í að afla upplýsinga um málið og var hann einnig samþykktur með 229 atkvæðum gegn 198.

Þinghúsið í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna.
Þinghúsið í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. AFP

Málið fer í framhaldinu til öldungadeildar Bandaríkjaþings sem þarf að samþykkja ákæruna til þess að hún nái endanlega fram að ganga. Þar hafa repúblikanar hins vegar meirihluta. Fyrir vikið er talið ólíklegt að öldungadeildin muni samþykkja ákæruna. Hins vegar hefur einnig verið bent á að meirihluti repúblikana sé naumur eða 53 þingmenn gegn 47. Þar af hafa demókratar 45 þingmenn en tveir þingmenn eru óháðir.

Þetta er í þriðja skiptið sem fulltrúadeildin samþykkir ákæru á hendur forseta Bandaríkjanna. Þeir forverar Trump sem ákærðir voru í fulltrúardeildinni eru Andrew Johnson árið 1868 og Bill Clinton 1998. Hvorug ákæran var hins vegar samþykkt í öldungadeildinni.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina