Sacoolas loks ákærð fyrir manndráp

Harry Dunn lést í lok ágúst.
Harry Dunn lést í lok ágúst. Ljósmynd/Twitter

Anne Sacoolas, eiginkona bandarísks leyniþjónustumanns, hefur nú verið ákærð fyrir að hafa valdið dauða Harry Dunn, 19 ára gamals mótorhjólakappa, með glæfraakstri. Guardian greinir frá þessu.

Sacoolas flaug frá Bretlandi til Bandaríkjanna einungis nokkrum dögum eftir banvænan árekstur hennar og Dunn. Þar naut hún friðhelgi sem sendierindreki.

Sönnunargögn voru afhent ákæruvaldi Bretlands 1. nóvember og síðan þá hefur legið ljóst fyrir að Sacoolas keyrði á vitlausum vegarhelming þegar hún ók á Dunn.

Sacoolas hafði einungis dvalið í Bretlandi í þrjár vikur þegar áreksturinn átti sér stað. Hún hefur verið yfirheyrð af breskum rannsóknarlögreglumönnum í Bandaríkjunum. 

Foreldrar Dunn hafa barist ákaft fyrir réttlæti í málinu. Þau grétu úr gleði þegar fréttirnar bárust þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert