Er á tali hjá þér um jólin?

Betur fór en á horfðist í Bergen í Noregi í …
Betur fór en á horfðist í Bergen í Noregi í gærkvöldi þegar farsími í hleðslu stóð skyndilega í ljósum logum og hafði kveikt í sængurfötum og líni þegar húsráðendur urðu brunans varir. Slökkviliðið í Bergen beinir því til almennings að hlaða ekki síma sína eftirlitslaust, að minnsta kosti ekki eftir að gengið er til náða, þótt mörgum þyki freistandi að hlaða símann yfir nóttina áður en annasamur dagur rís. Ljósmynd/Slökkviliðið í Bergen

Slökkviliðið í Bergen í Noregi brýnir fyrir íbúum borgarinnar að forðast í lengstu lög að skilja farsíma sína eftir í hleðslu þegar gengið er til náða. Illa hefði getað farið þegar farsími í hleðslu stóð skyndilega í ljósum logum í Sotra þar í borg seint í gærkvöldi og var búinn að kveikja í sængurfötum þegar íbúar hússins urðu brunans varir.

Kim Daniel Haugsvær neyðarsímavörður segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að mörgum þyki freistandi að hlaða síma sína meðan sofið er, dagtíminn sé mörgum annasamur og þá minna næði til að hlaða þessi hentugu snjalltæki sem margir eru nú farnir að eiga líf sitt undir. Kannski ekki bara í jákvæðum skilningi.

Slökkviliðið biður almenning að forðast að hlaða símana þegar enginn er nálægur til að hafa auga með þeim og Haugsvær bendir auk þess á vefsíðuna Hversdagsöryggi, eða Sikker hverdag sem Almannavarnastofnun Noregs (n. Direktoratet for samfunnssikkerhet og beredskap) heldur úti með ýmsum einföldum fyrirbyggjandi ráðleggingum varðandi öryggismál á heimilinu.

Farsímar kveikjan í níu af 5.685 húsbrunum

Ekki er þó hægt að segja að farsímabrunar séu algeng orsök húsbruna í Noregi. Faktisk.no, vefsíða sem er eins konar sameiginlegur rannsóknarvettvangur nokkurra stærstu fjölmiðla Noregs, bendir á í samantekt í fyrra að ekki sé hægt að kalla farsíma hinn nýja skaðvald húsbruna í Noregi sem meðal annars tryggingafyrirtækið Gjensidige hafði þá haldið fram.

Bendir Faktisk á að í 5.685 húsbrunum í Noregi frá ársbyrjun 2016 til og með júní 2018 hafi farsímar eingöngu verið kveikjan í níu tilfellum, eða 0,2 prósentum. Ekki er þó síður athygli verð sú tölfræði síðunnar Finans Norge, sem meðal annars heldur utan um öll tjón sem tilkynnt eru til norskra tryggingafyrirtækja, að árið 2017 voru alls 23.226 brunatjón tilkynnt til trygginga, það er öll brunatjón, einnig minni háttar. Af þeim áttu 1.816 upptök sín í raftækjum, sem þó er ekki flokkað nánar og tekur því til allra vanalegra heimilistækja, svo sem hljómflutningstækja, sjónvarpa og tölva.

Hvað sem allri tölfræði líður eiga ráðleggingar slökkviliðisins í Bergen varðandi næturhleðslu farsíma vafalítið erindi víðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert