Stórhættulegt eiturgrænt slím á götum

Grænt slím vellur út á hraðbraut í Detroit í Bandaríkjunum.
Grænt slím vellur út á hraðbraut í Detroit í Bandaríkjunum. skjáskot/BBC

Stórhættulegt eiturgrænt og slímkennt króm barst inn á hraðbraut í Detroit í Bandaríkjunum á dögunum. Efnið er krabbameinsvaldandi og vinnur lögreglan hörðum höndum að því að hreinsa efnið upp af götunum en ljóst er það tekur nokkra daga. BBC greinir frá. 

Eiturefnið barst úr verksmiðju í nágrenninu sem hafði einmitt verið lokað árið 2016 vegna ólöglegra hættulegra eiturefna sem þar voru geymd. Ekki er talin hætta á að efnið stofni heilsu fólks í hættu, berist út í andrúmsloftið eða hafi áhrif á neysluvatn, samkvæmt tilkynningu frá heilbrigðiseftirlitinu.

Efnið rann úr kjallara verksmiðjunnar og niður í jörðina og fann sér leið inn á hraðbraut 696. Þar fraus það. Starfsmenn vinna að því að taka það upp úr götunni og setja í þar til gerðar tunnur. 

Eigandi verksmiðjunnar, Gary Sayers, situr í fangelsi vegna eiturefnanna og mun afplána dóm sinn í eitt ár.  

mbl.is