Misheppnuð jól hjá milljónum Frakka

Tómlegt á teinunum. Óvenjuleg ró vakti yfir lestarstöðinni Gare de …
Tómlegt á teinunum. Óvenjuleg ró vakti yfir lestarstöðinni Gare de l'Est á Þorláksmessu. AFP

Jólin eru öðrum hátíðum fremri í að sameina fjölskyldur í Frakklandi og leggja menn land undir fót, jafnvel til langra ferðalaga, til að sameinast ástvinum. Milljónir manna eru á faraldsfæti síðustu dagana fyrir jól, en vegna verkfalla og mikillar röskunar í samgöngukerfinu undanfarnar vikur þótti í byrjun vikunnar allt stefna í að jafnvel milljónir yrðu að sitja heima um jólin og missa af samgleðinni.

Eitthvað rættist úr á allra síðustu dögum fyrir jólahelgina er hluti stéttarfélaga gaf eftir og bauð grið um jól og áramót. Harðlínumenn úr röðum lestarstjóra og annarra starfsmanna ríkisjárnbrautanna (SNCF) sýndu þess þó engin merki að taka griðaboði og gera hlé á þriggja vikna verkfalli er þeir mættu á götur útí París á mánudag. Kom meðal annars til átaka þeirra við lögreglu. Þetta þótti benda til að áfram yrði samgöngukerfið upp á rönd í Frakklandi. Hefur fólk síðustu daga leitað annarra leiða til að komast leiðar sinnar, svo sem með rútum og deilibílum, aðeins til að komast að því að þar væri allt löngu uppselt.

Þótt mikill meirihluti starfsmanna SNCF og jarðlesta- og strætisvagnakerfis Parísar (RATP) hafi mætt til vinnu alla daga verður röskunin svo mikil þar sem tveir þriðju eða fleiri lestarstjóra hafa lagt niður vinnu dag hvern. Seig hlutfall þeirra niður fyrir 50% í fyrsta sinn á Þorláksmessu.

- Macron afsalar sér lífeyri -

Viðbúnir öllu. Liðsmenn öryggissveita franska innanríkisráðuneytisins með alvæpni við Gare …
Viðbúnir öllu. Liðsmenn öryggissveita franska innanríkisráðuneytisins með alvæpni við Gare de Lyon lestarstöðina í París á Þorláksmessu. AFP


Fátt annað hefur verið á vörum Frakka undanfarnar vikur en verkföllin. Vegna hinna gríðarlegu raskana sem þau hafa valdið í þjóðfélaginu og bitnað harkalega á saklausu fólki hafa vopnin að einhverju leyti verið að snúast í höndum verkfallsmanna og samúð með þeim dvínað. Meirihluti fólks hefur samkvæmt mælingum verið fylgjandi breytingum á lífeyriskerfinu, sem felur í sér að tekið verður upp eitt samræmt kerfi fyrir alla í stað 42 mismunandi kerfa sérívilnana. Víst þykir að við það muni hópar fólks glata forréttindum sínum.

Emmanuel Macron forseti biðlaði á sunnudaginn til deiluaðila og hvatti til jólagriða, en viðræður stéttarfélaganna við yfirvöld föstudaginn báru lítinn sem engan árangur. Starfsmenn ríkisjárnbrautanna SNCF og jarðlesta og strætisvagnakerfis Parísar (RATP) hafa verið háværastir í verkfallsaðgerðum. Þrátt fyrir grið að hluta versnaði ástandið í lestarkerfinu sl. sunnudag er tugþúsundir ætluðu að ferðast til jólahalds með vinum og  vandamönnum.  Aðeins helmingur hraðlestanna (TGV) gekk og fjórðungur svonefndra inter-city lesta.
 
Lestir sem flytja fólk úr og í vinnu á Parísarsvæðinu lágu að mestu niðri á sunnudag, síðasta stórdegi jólaverslunarinnar,  og aðeins tvær af 16 línum jarðlestakerfisins gengu. Á mánudag stóð til að 10 línur yrðu í rekstri sl. mánudag en með minni ferðatíðni en venjulega, nema línunum tveimur þar sem lestarnar eru alsjálfvirkar, þar átti tíðnin að vera eðlileg. Að sögn SNCF var ætlunin af tvær af hverjum fimm hraðlestum (TGV) yrðu í förum.

- Dvínandi stuðningur -

Sérsveitarmenn lögreglu stugga við mótmælendum sem þátt tóku í aðgerðum …
Sérsveitarmenn lögreglu stugga við mótmælendum sem þátt tóku í aðgerðum verkfallsmanna við Gare de Lyon lestarstöðina í París á Þorláksessu. AFP


Macron hvatti verkfallsmenn til að „faðma ábyrðgarandann“ og lét í ljós vonir um að „velvilji yrði ofan á“.

„Ég er á því að á vissum stundum í lífi þjóðar sé til bóta að lýsa yfir griðum, í virðingarskyni við fjölskyldurnar og líf þeirra og starf,“ sagði Macron sem þá var í heimsókn hjá frönskum hersveitum í Abidjan á Fílabeinsströndinni.

Af hálfu forsetaskrifstofunnar í Elysee-höllu var á sunnudag tilkynnt, að Macron hefði ákveðið að afsala sér eftirlaunum sem honum bæri sem fyrrverandi forseta. Hann myndi heldur ekki taka sæti sitt í stjórnlagaráðinu sem gæfi vel í aðra hönd. Mun Macron hafa gert sér vonir um að þetta skref hans yrði til að róa verkfallsmenn. Samkvæmt hefð sitja fyrrverandi forsetar í stjórnlagaráðinu sem er nokkurs konar æðsti stjórnlagaréttur Frakklands. Með ákvörðun sinni verður bankamaðurinn fyrrverandi, sem varð 42 ára um helgina, af 19.720 evrum á mánuði til æviloka, eða sem svarar 2,7 milljónum króna.

Samkvæmt skoðanakönnun sem IFOP-stofnunin birti sl. sunnudag fer stuðningur almennings við verkfallsaðgerðirnar dvínandi. Alls sögðust 51%  styðja eða hafa samúð með verkfallsmönnum, sem var þremur prósentustigum minni stuðningur en viku fyrr.

- „Þetta er óbærilegt“ -

Ferðalangur reynir að kaupa farmiða með neðanjarðarlestum Parísar í sjálfsala …
Ferðalangur reynir að kaupa farmiða með neðanjarðarlestum Parísar í sjálfsala á Gare l'Est lestarstöðinni á Þorláksmessu. AFP


Þetta gæti breyst yfir hátíðarnar, samverudagana sem frönskum fjölskyldum þætti svo vænt um, sagði Jean Garrigues, sögukennari við háskólann í Orleans,  við fréttastofuna AFP. „Umferðarvandinn hefur fyrst og fremst sagt til sín á Parísarsvæðinu. og næstu daga munum við sjá hvernig aðgerðirnar bitna líka á dreifbýlisfólki. Það mun gera margan afhuga stéttarfélögunum,“ sagði Garrigues.  

Á laugardag reyndi svekktur maður að nafni Jeffrey Nwutu Ebube að finna leið til að komast frá hafnarborginni Le Havre við Ermarsund til Toulouse, sem er 850 kílómetrum sunnar í landinu.  „Hjá mér er allt úr skorðum gengið, þessi verkföll eru óbærileg. Ríkisstjórnin verður að gera eitthvað,“ sagði hann.

Stjórnin segir uppstokkun lífeyriskerfisins nauðsynlega til að skapa réttlátara og gagnsærra kerfi. Kveðst hún aldrei munu falla frá áformunum, eins og stéttarfélögin flest krefjast. Numinn verður úr gildi lágur eftirlaunaaldur og önnur sérréttindi sem fyrst og fremst opinberir starfsmenn hafa notið. Svo sem lestarstjórar sem farið geta á eftirlaun 52 ára. Um kjör þeirra gilda um og rúmlega aldargamlar reglur, frá tímum gufulestanna þegar vinnan var mun erfiðari en nú. Liður í kjörunum er svonefnd „kolaþóknun“ sem lestarstjórarnir fá fyrir að moka kolum í kyndikatla gufuvél lestanna þótt meira en hálf öld sé frá því gufulestirnar hurfu af sjónarsviðinu.

Sumir stéttarfélagsleiðtogar styðja einföldun lífeyriskerfisins en nær allir eru þeir þó andvígir þeirri ætlan ríkisstjórnarinnar að launþegar sem öðlast hafa full réttindi áður fari í fyrsta lagi á eftirlaun við 64 ára aldur þótt opinberi lífeyrisaldurinn sé 62 ár.

- Þungt högg fyrir fyrirtæki -

Öryggisverðir frönsku SNCF-lestanna stuðla að óheftri för ferðalanga á Gare …
Öryggisverðir frönsku SNCF-lestanna stuðla að óheftri för ferðalanga á Gare de Lyon stöðinnií París á Þorláksmessu. AFP


Stéttarfélögin vona að sagan frá 1995 endurtaki sig, er þáverandi ríkisstjórn dró til baka tillögur sínar um uppstokkun lífeyriskerfisins eftir víðtækar þriggja viknar aðgerðir sem lömuðu lestarsamgöngur, einnig rétt fyrir jól. Blaðið Le Figaro sagði í byrjun vikunnar að yfirvöld skoðuðu möguleikann á að nýta ákvæði laga til að taka lestarsamgöngurnar nokkurs konar eignanámi er lúta myndu lögum um þegnskylduvinnu og þannig gera starfsmönnum skylt að vinna, ellegar missa starfið.

Desembermánuður vegur þungt í veltu og afkomu hvers kyns þjónustufyrirtækja. Aðgerðirnar nú hafa komið harkalega við kaunin á mörgum þeirra, ekki síst smásöluversluninni, hótelum og veitingahúsum. Hin ýmsu hagsmunasamtök  þeirra hafa skýrt frá 30 - 60% samdrætti veltu miðað við sama tíma í fyrra.

Það eru fleiri sem geta farið eldsnemma á eftirlaun samkvæmt aldurshnignum samningum. Til dæmis hafa dansarar og söngvarara frönsku óperunnar verið duglegir þátttakendur í mótmælunum undanfarið. Sérkerfi þeirra verður upprætt  en samkvæmt því geta dansarar óperunnar farið á full eftirlaun aðeins 42 ára gamlir. Það eiga þeir að þakka Loðvík fjórtánda sem ákvað árið 1698, fyrir 320 árum, að dansarar og aðrir listamenn óperunnar gætu ekki unnið lengur vegna líkamlegs álags og skyldu á eftirlaun 42 ára. Hafa þeir fengið grunnlífeyri upp á 1.067 evrur á mánuði og síðan getað  drýgt þau með starfi á öðrum vettvangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina