Beittu táragasi og piparúða á mótmælendur

Lögreglan í Hong Kong beitti táragasi og piparúða á mótmælendur í nótt, en talsverður ófriður var á götum borgarinnar eftir nokkrar vikur sem geta flokkast sem rólegar, eftir sex mánaða mótmæli. Þá kom til átaka milli lögreglu og mótmælenda í verslunarmiðstöð og bensínsprengjum var kastað.

Svartklæddir mótmælendur voru mættir á götur borgarinnar í gærkvöldi, en margir þeirra voru einnig klæddir jólasveinahúfum. Fljótlega kom til átaka við óeirðalögregluna og skaut hún táragashylkjum á mannfjöldann. Þá var gúmmíkúlum einnig skotið á mannfjöldann. 

Lögreglan sagði mótmælendur hafa byggt upp vegatálma, skemmt umferðarljós og framið skemmdarverk á búðum. Þá hafi mótmælendur einnig hent bensínsprengjum.

Skyndimótmæli fóru einnig fram í verslunarmiðstöðvum þar sem mótmælendur gagnrýndu stjórnvöld í landinu. Í einni verslunarmiðstöðinni notaði lögreglan piparúða og kylfur eftir að mótmælendur uppgötvuðu hóp óeinkennisklæddra lögreglumanna meðal mótmælenda og umkringdi þá.

mbl.is