Farþegaþota fórst í Kasakstan

Að minnsta kosti fjórtán létust þegar farþegaþota brotlenti fljótlega eftir flugtak frá Almaty-flugvellinum í Kasakstan í nótt. 17 voru fluttir alvarlega slasaðir á sjúkrahús. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá borgarstjórn Almaty sem birt var á síðu borgarinnar á Telegram-samskiptasíðunni. 

Á vef BBC kemur fram að 98, 93 farþegar og 5 í áhöfn, hafi verið um borð í þotunni, sem er af Fokker-100 gerð, þegar hún fórst en flugvélin, sem er í eigu Bek Air var á leið frá Almaty, sem er stærsta borg Kasakstan til höfuðborgarinnar, Nur-Sultan. Alls slösuðust 35 í flugslysinu en mismikið. Meðal slasaðra eru átta börn. 

BBC vísar í frétt Reuters-fréttastofunnar en þar segir að mikil þoka sé á slysstað en ekki liggi fyrir hvað olli slysinu. Þotan missti hæð skömmu eftir flugtak eða klukkan 07:22, 01:22 að íslenskum tíma, flaug á steyptan vegg og þaðan á tveggja hæða hús. Ekki kviknaði í vélinni, segir enn fremur í frétt BBC.

Forseti Kasakstan, Kassym-Jomart Tokayev, heitir fjölskyldum þeirra sem fórust stuðningi og að þeir sem beri ábyrgð verði látnir svara til saka. Rannsókn sé hafin á tildrögum slyssins.  

Í mars nauðlenti Fokker-100 þota Bek Air með 116 farþega um borð á alþjóðaflugvellinum í höfuðborg Kasakstan eftir að bilun kom upp í lendingarbúnaði vélarinnar. Enginn slasaðist í óhappinu. Nú hefur iðnaðarráðuneytið gefið út yfirlýsingu um að Fokker-100 flugvélar verði kyrrsettar í landinu þangað til í ljós kemur hvað olli slysinu í nótt.

Guardian birtir myndskeið af slysstað 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert