„Of seint að flýja“

Of seint að flýja og þið verið að gera eitthvað strax ef þið ætlið að lifa af eru skilaboðin sem íbúar úthverfis áströlsku borgarinnar Melbourne fengu í dag. Ástæðan er kjarreldar sem eru farnir að ógna borginni. Steikjandi hitinn hjálpar ekki til en 47 stiga hiti er víða í landinu í dag. 

Yfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi vegna kjarreldana, sem geisa án þess að nokkuð verði við ráðið, í nágrenni næststærstu borgar Ástralíu. Óttast er um eignir og líf íbúa í borginni. Í Bundoora, sem er 16 km norður af miðborg Melbourne, er mikil hætta á ferðum. Á þessu svæði eru tvö háskólasvæði þar sem fjölmargir námsmenn búa. 

AFP

„Þið eruð í hættu og verðið að grípa strax til aðgerða til þess að lifa af,“ segir í skilaboðum sem almannavarnir sendu til íbúa á svæðinu. „Öruggast er að koma sér í skjól innandyra því það er of seint að fara,“ segir ennfremur í skilaboðunum. 

Fréttamiðlar í Ástralíu hafa í dag birt myndir af flugvélum fljúga yfir svæðið og varpa vatnssprengjum í þeirri von að verja húsin í hverfinu. Eins hafa birst myndir af fjölskyldum sprauta úr vatnsslöngum á hús sín í þeirri von að það stöðvi eldinn. 

AFP

Tíu eru látnir og yfir eitt þúsund heimili hafa orðið eldinum að bráð. Yfir þrjár milljónir hektara lands eru ónýtir en það er stærra landsvæði en Belgía. Aðstæður versnuðu til muna á föstudag þegar hvessti og hitinn hækkaði. Í vesturhluta Ástralíu er hitinn um 47 gráður og í hverju héraði er yfir 40 stiga hiti. Jafnvel á eyjunni Tasmaníu. 

Meira en tugur kjarrelda geisar í Austur-Gippsland og að sögn yfirvalda hefur þurft að rýma talsverðan fjölda húsa þar en svæðið er afar vinsælt meðal ferðamanna. Þeir hafa verið varaðir við því að hætta sé á að þeir lokist inni þar sem líklegt þykir að eina hraðbrautin sem enn er opin lokist fljótlega vegna eldanna sem fara á ógnarhraða um og eira engu. En því miður sé orðið of seint fyrir þá að fara núna og ekki sé möguleiki á að aðstoða þá alla. 

AFP

Svipaða sögu er að segja í Suður-Ástralíu en þar er varað við því að dagurinn í dag og kvöldið verði hættulegt vegna þrumuveðurs án rigningar. Það eru þrumur og eldingar án úrkomu sem líklega munu kveikja fleiri elda. 

AFP

Í Sydney og fleiri stórborgum hefur börnum verið bannað að leika sér utandyra og íþróttaviðburðum verið aflýst vegna kjarrelda í nágrenninu.

Í Canberra hefur verið ákveðið að hætta við flugeldasýningar vegna eldanna og margir aðrir staðir hafa tekið sömu afstöðu. Hvatt hefur verið til þess að hætt verði við flugeldasýninguna í Sydney sem er heimsþekkt og fjármunirnir þess í stað notaðir í baráttuna gegn kjarreldunum en yfirvöld hafa neitað því. Sydney hefur eytt 6,5 milljónum ástralíudala, sem svarar til 550 milljóna króna, í flugeldasýninguna í ár og telja 270 þúsund manns sem hafa skrifað undir áskorunina að peningunum væri betur varið í að styðja sjálfboðaliða og bændur sem berjast við eldana.

AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert