Sanders hefur jafnað sig af hjartaáfallinu

Bernie Sanders, öldungardeildarþingmaður Demókrata, býður sig fram sem forsetaefni Demókrataflokksins.
Bernie Sanders, öldungardeildarþingmaður Demókrata, býður sig fram sem forsetaefni Demókrataflokksins. AFP

Bernie Sanders, sem sæk­ist eft­ir því að verða fram­bjóðandi demó­krata í for­seta­kosn­ing­un­um í Banda­ríkj­un­um á næsta ári, hefur náð sér að fullu eftir hjartaáfall sem hann varð fyrir í október og er við góða heilsu. Þetta kemur fram í bréfi frá lækni þingmannsins, sem birt var í dag.

Martin LeWinter, hjartalæknir við Háskólann í Vermont, heimaríki Sanders, segir að bati hans hafi verið tíðindalítill en góður. „Ég sé enga ástæðu fyrir því að hann ætti ekki að geta tekið þátt í kosningabaráttu án takmarkana og verði hann kosinn er ég þess fullviss að hann hafi andlega og líkamlega burði til að sinna skyldum sínum sem forseti,“ segir í bréfinu. Sanders undirgekkst þrekpróf og voru niðurstöður á þá leið að forsetaefnið væri í meðallagi þrekmikið miðað við aldur.

Bernie Sanders er elstur frambjóðenda til forseta Bandaríkjanna fyrir næstu kosningar, en hann er 78 ára gamall, ári eldri en Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, sem einnig gefur kost á sér í forvali demókrata. Nái hann kjöri verður hann elsti maðurinn til að gegna embætti forseta í Bandaríkjunum.

Donald Trump, núverandi forseti, er 73 ára. Hann er sá elsti til að taka við embætti forseta, en ætli hann sér að slá metið yfir elsta forseta í starfi þarf hann að tryggja sér endurkjör á næsta ári því Ronald Reagan var rétt tæplega 78 ára þegar hann lét af embætti 20. janúar 1989.

mbl.is