Kim Jong-un herskár á nýársdag

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur lýst því yfir að stjórnvöld í Pyongyang muni hætta að standa við orð sín um að stöðva prófun kjarnavopna og langdrægra flugskeyta. Frá þessu greindi ríkisfjölmiðill landsins, KCNA, að morgni nýársdags, sem þar er runninn upp.

„Það er engin ástæða fyrir okkur að vera einhliða bundin af samkomulaginu lengur,“ hefur KCNA eftir leiðtoganum, sem segir jafnframt að heimurinn muni fá að sjá nýtt vopn í höndum Norður-Kóreu í nánustu framtíð og að Norður-Kórea muni grípa til „sláandi alvöru aðgerða“ til þess að láta Bandaríkin borga fyrir þjáningar borgara í Norður-Kóreu.

Í frétt AFP-fréttastofunnar um málið segir að yfirlýsing norðurkóreska leiðtogans sé á skjön við það sem Kim sagði á síðasta ári, er hann sagði ríkið ekki þurfa að gera frekari prófanir á kjarnorkuvopnum né langdrægum flugskeytum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti vitnar oft til þessara orða leiðtogans sem „loforðs“ sem hann hafi veitt honum. Nú segist Kim ætla að stefna í aðra átt og hótar að hefja slíkar tilraunir á ný.

Lítið hefur gerst í samningaviðræðum Norður-Kóreu og Bandaríkjanna um kjarnorkuafvopnun fyrrnefnda ríkisins frá því að Kim og Trump slitu fundi sínum í Hanoi í febrúarmánuði. Norður-Kóreumenn höfðu lýst því yfir að Bandaríkin hefðu frest út árið sem er að líða til þess að koma til móts við þá, en það var ekki gert. 

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, fer í vígahug inn í nýtt …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, fer í vígahug inn í nýtt ár. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert