Drepin í skjóli skóla

Við skólann í Sarmeen í dag.
Við skólann í Sarmeen í dag. AFP

Átta létust í árás stjórnarhersins á skóla í sýrlenska bænum Sarmeen í dag, á fyrsta degi ársins. Fjögur þeirra eru börn en skólanum hafði verið breytt í neyðarskýli fyrir þá sem höfðu þurft að flýja heimili sín. Um miðjan mars verða liðin 9 ár frá því stríðið í Sýrlandi hófst. Stríð sem hefur neytt milljónir til að yfirgefa heimili sín og kostað um hálfa milljón mannslífa.

Undanfarnar vikur hefur stjórnarherinn, með stuðningi Rússa, hert mjög árásir á Idlib-hérað en það er síðasta stóra vígi stjórnarandstöðunnar. Í desember hröktust 284 þúsund íbúar héraðsins af heimilum sínum vegna stöðugra árása á bæi og borgir héraðsins en alls búa um þrjár milljónir í Idlib.

AFP

Sextán særðust í árásinni og einhverjir þeirra eru í lífshættu. Fréttaritari AFP-fréttastofunnar á vettvangi segir að hann hafi séð leifar af logandi eldflaug á ólífulundi skammt frá skólanum. 

Vegna þess hversu margir eru á vergangi hefur opinberum byggingum, moskum, bílskúrum, hjónavígslusölum og skólum verið breytt í neyðarskýli, samkvæmt upplýsingum frá OCHA, sam­ræm­ing­ar­skrif­stofu Sam­einuðu þjóðanna um mannúðar­mál.

AFP

Rússar, bandamenn forseta Sýrlands, lýstu yfir vopnahléi í Idlib undir lok ágúst eftir nokkurra mánaða bardaga sem kostuðu um eitt þúsund almenna borgara lífið. En lítið hefur farið fyrir því að undanförnu að vopnahléið sé virt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert