Stjórnarkreppa á enda í Austurríki

Sebastian Kurz, formaður Þjóðarflokksins, og Werner Kogler, formaður Græningja.
Sebastian Kurz, formaður Þjóðarflokksins, og Werner Kogler, formaður Græningja. AFP

Leiðtogar Þjóðarflokksins og Græningja hafa náð saman um myndun ríkisstjórnar í Austurríki. Sebastian Kurz, leiðtogi Þjóðarflokksins, tekur við embætti kanslara á nýjan leik.

Er þar með endi bundinn á stjórnarkreppu sem varað hefur frá því í maí í fyrra er stjórn Þjóðarflokksins og Frelsisflokksins hrökklaðist frá völdum eftir að Heinz-Christian Strache, formaður Frelsisflokksins, hafði gerst uppvís að þvi að bjóða fyrirtækjum hlunnindi gegn pólitískum stuðningi. Í kjölfarið var boðað til kosninga. Þar hlaut Þjóðarflokkurinn 37 prósenta fylgi, en Græningjar 14.

„Okkur hefur tekist að sameina það besta úr báðum heimum,“ sagði Kurz á nýársdag er stjórnin var kynnt. „Það er mögulegt að verja bæði loftslag og landamæri.“ Stjórnarsáttmáli hefur enn ekki verið kynntur í heild sinni, en af tali formannanna má ætla að stefnt verði að almennum skattalækkunum, í samræmi við stefnu Þjóðarflokksins, á sama tíma og ýmsir grænir skattar verða hækkaðir.

mbl.is