Djörf ákvörðun að granda Soleimani

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump tók djarflega ákvörðun er hann greip til varnaraðgerða fyrir bandaríska embættismenn í Íran og drap Quasem Soleimani, leiðtoga írönsku sérsveitarinnar, í nótt. Þetta segir Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á Twitter. Demókratarnir segja að ákvörðun forsetans sé til þess fallin að auka óstöðugleika í Mið-Austurlöndum, sem síst hafa verið þekkt fyrir stöðugleika fyrir.

Joe Biden, einn forsetaframbjóðanda Demókrata, segir á Twitter að enginn Bandaríkjamaður muni syrgja fráfall Soleimanis. Hann fái það sem hann eigi skilið eftir glæpi gegn bandarískum hersveitum og óbreyttum borgurum á svæðinu. Það breyti því ekki að ákvörðun Trumps forseta sé hættuleg. „Trump kastaði rétt í þessu dínamíti inn í púðurtunnu, og hann verður að útskýra fyrir Bandaríkjamönnum hvaða áætlun hann hefur til að tryggja öryggi hersveita og sendiráðsstarfsmanna,“ sagði Biden. Í sama streng tók Elizabeth Warren. 


Bernie Sanders bendir á að hann hafi kosið gegn Íraksstríðinu árið 2002 þar sem hann hefði óttast að stríðið gæti dregið úr stöðugleika á svæðinu. Segir hann ljóst að það hafi ræst. Um 4.500 hermenn látist, tugir þúsunda slasast og þúsundum milljarða dollara verið eytt. Sagði Sanders að ákvörðun Trumps um að drepa Soleimani væri hættuleg og færði Bandaríkin nær enn einu skelfilegu stríðinu í Mið-Austurlöndum, sem gæti kostað fjölda lífa og þúsundir milljarða dala.

Joe Bidem og Elizabeth Warren eru meðal þeirra sem berjast …
Joe Bidem og Elizabeth Warren eru meðal þeirra sem berjast um að hljóta útnefningu sem forsetaefni Demóktataflokksins. AFP

 Hver var Quasem Soleimani?

Qasem Soleimani, sem var drepinn í loftárásum Bandaríkjamanna í nótt, var hylltur sem þjóðhetja í Íran. Soleimani fór fyrir sérsveit íranska hersins, Qud Force, en sú stýrir aðgerðum Íranshers í öðrum ríkjum. Hefur Bandaríkjastjórn skilgreint sveitina sem hryðjuverkasveit. Soleimani var af mörgum talinn næstáhrifamesti maður ríkisins, á eftir æðsta klerki landsins, Ali Khameini. 

Bandarísk hernaðaryfirvöld hafa sagt hann bera ábyrgð á dauða hundraða bandarískra hermanna í Írak, meðal annars með því að útvega uppreisnarmönnum þar í landi vopn og þjálfa þá í sprengjugerð. Þá hafa bandarískir herforingjar haldið því fram að sveitir Soleimanis hafi séð uppreisnarmönnum frá Írak fyrir sérstökum sprengjum sem gátu komist í gegnum herklæði bandarískra hermanna. Þessu hafa Íranir ætíð hafnað.

Ungur mótmælandi heldur á mynd af Qasem Soleimani.
Ungur mótmælandi heldur á mynd af Qasem Soleimani. AFP

Allar þessar ásakanir hafa legið fyrir um hríð. Í vikunni dró hins vegar til tíðinda er mótmælendur í Bagdad, höfuðborg Íraks, réðust á sendiráð Bandaríkjanna í borginni. Mót­mæl­end­ur köstuðu grjóti að sendi­ráðinu, eyðilögðu ör­ygg­is­mynda­vél­ar og kveiktu í banda­ríska fán­an­um. Tókst ör­ygg­is­vörðum ekki að koma í veg fyr­ir að hóp­ur­inn kæm­ist inn fyr­ir varn­ar­múra sendi­ráðsins, þrátt fyr­ir að beita tára­gasi og öðrum vopn­um.

Donald Trump Bandaríkjaforseti var fljótur að slá því föstu á Twitter að Íranir bæru ábyrgð á árásinni. Yrðu þau látin sæta ábyrgð. Ætla má að þeirri ábyrgð hafi Soleimani nú sætt. Í yfirlýsingu sem varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna birti í dag segir að Soleimnai hafi „undirbúið áætlanir um að ráðast á bandaríska erindreka í Írak og víðar á svæðinu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert