Dýnamít í púðurtunnu?

Bandarískir stjórnmálamenn hafa ýmist lýst yfir stuðningi eða vanþóknun varðandi aðgerðir Bandaríkjahers á alþjóðaflugvellinum í Bagdad í Írak í nótt, en þar drápu Bandaríkjamenn einn áhrifamesta mann Írans, herforingjann Qasem Soleimani. Bandaríkjaþing kvartar yfir því að hafa ekki fengið að vita af því að drónaárásin, sem Donald Trump fyrirskipaði, væri fyrirhuguð.

Repúblikanar hafa stutt ákvörðun forsetans um að láta til skarar skríða gegn Soleimani, en þingmenn Demókrataflokksins og forsetaframbjóðendur hafa lýst yfir áhyggjum af því að aðgerðir næturinnar geti leitt til þess að stríðsátök bresti á milli Bandaríkjanna og Írans. Margir álitsgjafar um málefni Mið-Austurlanda telja það ekki ólíklegt og írönsk stjórnvöld eru augljóslega í hefndarhug.

Kevin McCarthy, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, segir í yfirlýsingu að árásin í nótt hafi sýnt „staðfestu og styrk“. Fleiri repúblikanar fylgdu í kjölfarið og hrósuðu aðgerðinni: „Vá – verðið sem menn þurfa að greiða fyrir að drepa og særa Bandaríkjamenn var rétt í þessu að hækka á drastískan hátt,“ tísti Lindsay Graham öldungadeildarþingmaður flokksins.

Stjórnvöld í Írak hafa fordæmt árásina og segja hana „óskammfeilið …
Stjórnvöld í Írak hafa fordæmt árásina og segja hana „óskammfeilið brot“ á öryggissamningi Íraks og Bandaríkjanna um framferði bandarísks herafla innan landamæra Írak. AFP

Forsætisráðherra Íraks telur að hörmulegt stríð muni fylgja

Árásin á Soleimani banaði einnig Abu Mahdi al-Muhandis, áhrifamiklum leiðtoga úr röðum írakskra uppreisnarmanna (Hashed al-Shaabi). Stjórnvöld í Írak hafa fordæmt árásina og segja hana „óskammfeilið brot“ á öryggissamningi Íraks og Bandaríkjanna um framferði bandarísks herafla innan landamæra Íraks.

Qasem Soleimani (t.v.) og Abu Mahdi al-Muhandis (t.h.), féllu báðir …
Qasem Soleimani (t.v.) og Abu Mahdi al-Muhandis (t.h.), féllu báðir í árás Bandaríkjahers í Bagdad í nótt. AFP

Árásin mun nær örugglega valda ólgu í Írak, en þar þurfti að rýma sendiráð Bandaríkjanna í Bagdad á gamlársdag eftir að mótmælendur á bandi íranskra stjórnvalda mótmæltu banvænum loftárásum Bandaríkjahers gegn uppreisnarmönnum Hashed al-Shaabi-samtakanna.

Adel Abd­ul Mahdi, forsætisráðherra ríkisins, telur öruggt að aðgerðin muni leiða til „hörmulegs stríðs í Írak“ og bandaríska sendiráðið í Írak hefur fyrirskipað öllum bandarískum borgurum að yfirgefa Írak „undir eins“.

Írakar dansi þakklátir á götum úti

Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna setti inn myndskeið á Twitter-síðu sína í morgun þar sem kveður við annan tón. Hann segir að myndskeiðið sýni Íraka dansa á götum úti og fagna því að Soleimani hafi verið ráðinn bani.

Bandaríkjaþing telur sig hundsað

Samkvæmt frétt AFP er hefð fyrir því að Hvíta húsið láti leiðtoga beggja flokka á þingi vita af fyrirhuguðum meiri háttar hernaðaraðgerðum, en það var ekki gert í nótt samkvæmt Eliot Engel, demókrata og formanni utanríkismálanefndar fulltrúadeildarinnar.

Engel segir að Soleimani hafi verið heilinn á bak við ofbeldisaðgerðir Íransstjórnar og að hann hafi haft „blóð Bandaríkjamanna á höndum sér“, en það að ráðast í slíkar aðgerðir án þátttöku þingsins vekji upp lagalegar spurningar og sé móðgun við vald þingsins.

Demókratar óttast að málið leiði til átaka

Forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins hafa verið afar gagnrýnir á árásina. „Trump forseti var rétt í þessu að kasta dýnamíti ofan í púðurtunnu,“ sagði Joe Biden í yfirlýsingu. Hann býst við öflugu andsvari frá Íran og segir að Bandaríkin gætu nú staðið á brún „meiri háttar átaka í Mið-Austurlöndum.

Bernie Sanders segir að Trump sé að spila hættulegan leik og að aðgerð næturinnar „færi okkur nær öðru hörmulegu stríði í Mið-Austurlöndum sem gæti kostað ótal mannslíf og billjónir dollara til viðbótar“.

Joe Biden (t.v.) og Bernie Sanders (t.h.) forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins telja …
Joe Biden (t.v.) og Bernie Sanders (t.h.) forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins telja báðir að aðgerð næturinnar hafi verið misráðin. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert