Henti lukkupeningum í flugvélarhreyfil

Flugvélarhreyfill. Ólíklega sá sem maðurinn henti peningi í.
Flugvélarhreyfill. Ólíklega sá sem maðurinn henti peningi í. STEPHEN BRASHEAR

Kínverskur karlmaður hefur verið sektaður fyrir að henda „lukkupeningum“ inn í flugvélarhreyfil. BBC greinir frá.

Maðurinn, sem er 28 ára gamall, var á leið í flug í fyrsta sinn og hugðist með þessu tryggja að allt færi vel fram. Ekki fór þó betur en svo að flugvélin var kyrrsett eftir að skildingarnir fundust nálægt hreyflinum, vélin fór aldrei í loftið og flugfélagið varð að koma farþegum á áfangastað með öðrum leiðum.

Maðurinn var handtekinn tíu dögum síðar og ákærður fyrir að raska friði í samfélaginu. Þá var honum gert að greiða jafnvirði 2,1 milljónar króna í einkamáli flugfélagsins Lucky Air á hendur honum. Lögmenn flugfélagsins höfðu haldið því fram að atvikið hefði kostað flugfélagið mun meira en 2,1 milljón króna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hjátrúarfullir farþegar hafa verið gripnir við að fleygja peningi í flugvélarhreyfla. Samskonar atvik kom til að mynda upp árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert