Írönsk stjórnvöld heita grimmilegum hefndum

Ali Khamenei, æðsti klerkur Íran.
Ali Khamenei, æðsti klerkur Íran. AFP

Æðsti klerkur Íran hefur heitið grimmilegum hefndum til þeirra sem bera ábyrgð á dauða herforingjans Qasem Soleimani. Soleimani var drepinn í loftárásum Bandaríkjamanna á Bagdad-flugvelli í nótt, en árásin var fyrirskipuð af Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Þjóðaröryggisráð Íran fundaði í dag og sat Ali Kamenei, æðsti klerkur Írans, fundinn. Khamenei situr að jafnaði ekki fundi ráðsins og þykir það því til marks um alvarleika málsins. Hefur drápið aukið enn á spennuna milli stjórnvalda í Bandaríkjunum og Íran.

Stjórnvöld í Íran hafa þegar lýst drápinu sem alþjóðlegum hryðjuverkum og í yfirlýsingu sem þjóðaröryggisráðið sendi frá sér að fundi loknum segir að Bandaríkjamenn megi gera ráð fyrir grimmilegum hefndaraðgerðum vegna þeirrar „glæpsamlegu ævintýramennsku“ að taka Soleimani af lífi. „Þetta var stærsta glappaskot Bandaríkjanna í Vestur-Asíu og Bandaríkin munu ekki sleppa við afleiðingar þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert