Trump: Komum í veg fyrir illgirnislegar árásir

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hann hafi fyrirskipað að ráðist yrði á Qasem Soleimani, hershöfðingja Írana, þar sem hann hefði verið að undirbúa „yfirvofandi og illgirnislegar árásir“ á Bandaríkjamenn. Þessu hélt forsetinn fram á blaðamannafundi við stórhýsi sitt í Mar-a-Lago á Flórída. Sagði hann að forverar hans í embætti hefðu átt að sjá um Soleimani fyrir löngu.

Forsetinn hefur í dag reynt að mála þá mynd að ákvörðunin hafi verið tekin til að koma í veg fyrir að stríð gæti brotist út milli Írans og Bandaríkjanna. Þrátt fyrir það hélt hann áfram að hóta leiðtogum ríkisins með frekari árásum héldu þeir áfram aðgerðum sem yllu óstöðugleika á svæðinu.

„Við viljum ekki stjórnarskipti á svæðinu,“ sagði Trump, en bætti við að umboðsstríðum (e. proxy war) Íransstjórnar yrði að ljúka. Þá montaði forsetinn sig af mætti Bandaríkjahers, sem hefði á að skipa bestu leyniþjónustu í heimi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert