Fréttakona ásakar Trump um áreitni

Courtney Friel, fyrrverandi fréttakona hjá Fox News.
Courtney Friel, fyrrverandi fréttakona hjá Fox News. WikimediaCommons/Novecentino

Courtney Friel, fyrrverandi fréttakona hjá Fox News, ásakar Donald Trump Bandaríkjaforseta um að hafa áreitt hana kynferðislega áður en hann varð forseti. Þetta kemur fram í nýrri bók sem Friel sendir frá sér í næstu viku en Friel var ein af þáttastjórnendum þáttarins Fox & Friends sem Trump er nú tíður gestur í. 

„Þú ættir að koma á skrifstofuna mína einhvern tíma, svo að við getum kysst,“ segir Friel að Trump hafi sagt við hana. Við það bætti hann orðunum „þú ert sú heitasta á fréttastofu Fox News,“ að sögn Friel. Guardian greinir frá þessu. 

Hún er ekki sú eina sem hefur opinberlega ásakað forsetann um kynferðislega áreitni en þær konur eru nú orðnar um tuttugu talsins. Ásakanir Friel birtast í óútkominni ævisögu hennar Tonight At 10: Kicking Booze and Breaking News.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Trúir öðrum sem hafa ásakað Trump

Friel, sem er 39 ára gömul, segir að áreitnin hafi átt sérstað vikum eftir að hún minntist á að hún hefði áhuga á að dæma í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Bandaríkin, sem Trump stýrði. Friel segir að tillaga Trumps hafi komið henni í opna skjöldu. 

„„Donald,“ sagði ég, „ég er nokkuð viss um að við séum bæði gift.“ Svo sleit ég símtalinu eins fljótt og ég gat,“ segir Friel í bókinni. 

„Þessi tillaga hans gerði mér erfitt fyrir að segja fréttir af forsetaframboði Trumps án þess að missa andlitið. Það gerði mig reiða að hann skyldi kalla konur sem hafa sagt frá áreitni hans lygara. Ég trúi þeim svo sannarlega,“ segir Friel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert